Lögmannsstofan Íslög, sem er í eigu hjónanna Steinars Þórs Guðgeirssonar og Ástríðar Gísladóttur, hagnaðist um 49 milljónir króna í fyrra samanborið við 34 milljónir á árinu 2018.Seld þjónusta nam 137 milljónum króna og jókst um 22 milljónir á milli ára. Eigið fé félagsins nam í árslok 205 milljónum samkvæmt efnahagsreikningi og eignir 342 milljónum. Þar af nam handbært fé 313 milljónum og hækkaði það um 138 milljónir króna á milli ára.

Íslög fékk greiðslur fyrir umsjón með rekstri Lindarhvols, félags í eigu fjármálaráðuneytisins, sem stofnað var til að sjá um sölu ríkiseigna sem ríkið fékk í kjölfar nauðasamninga við föllnu bankana árið 2015.Ríkisendurskoðun kannaði hvort bjóða hefði átt út þá þjónustu sem Íslög annaðist, einkum í ljósi þess kostnaðar sem hún hafði í för með sér fyrir félagið, en heildarkostnaður á starfstíma þess nam áttatíu milljónum króna án virðisaukaskatts.

Féllst stofnunin á þau sjónarmið að persónuleg þekking Steinars Þórs og reynsla hans hefði valdið því að samningur var gerður við Íslög. Þá fékk Ríkisendurskoðun enn fremur þær upplýsingar að „verulegur afsláttur“ hefði verið veittur frá tímagjaldi Íslaga.