Sprotasamtökin Silicon Vikings, sem eru hluti af tækni- og sprotaráðstefnunni, standa fyrir keppninni. Treble varð fulltrúi Íslands eftir að hafa sigrað í svokallaðri „pitch“ keppni sem haldin var á Iceland Innovation Week í Grósku í maí á þessu ári. Lokakeppnin var haldin í gær. Þar kepptu fulltrúar Norður- og Eystrasaltslanda og bar Finnur Pind, stofnandi og forstjóri Treble Technologies, sigur úr bítum.

Treble Technologies þróar hugbúnað til hljóðhönnunar og notast við tækni sem mun gjörbreyta því hvernig hægt sé að hanna hljóð og skapa hljóðupplifanir á breiðu sviði. Fyrirtækið var stofnað árið 2020 og er í samstarfi við mörg af fremstu fyrirtækjum heims í tækni-, byggingar- og bílaiðnaði.

„Þessi verðlaun styrkja okkur enn frekar í því sem við erum að gera. Við vorum þarna að keppa við mjög frambærileg fyrirtæki og dómnefndin samanstóð af alþjóðlegum fjárfestingarsjóðum í fremstu röð svo það er mikill heiður að hafa unnið,“ segir Finnur.

Hann bætir við að fyrirtækið sjái fram á gríðarlega aukinn áhuga frá markaðnum á starfsemi þeirra og segist spenntur að leyfa sem flestum að njóta góðs af tækni Treble.