Út­flutnings­tekjur vegna fyrir­tækja í hug­verka­iðnaði námu 160 milljörðum króna í fyrra, sem er 16 prósent af öllum út­flutningi frá Ís­landi og tvö­földun frá árinu 2013. Fyrir­tæki sem fengu endur­greiðslu vegna rann­sókna- og þróunar­verk­efna fóru úr rúm­lega 200 í rúm­lega 300 á milli áranna 2019 og 2020.

Sigurður Hannes­son, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka iðnaðarins (SI), segir að ef rétt er haldið á spöðunum geti hug­verka­iðnaðurinn orðið ein stærsta út­flutnings­greinin í ís­lensku hag­kerfi.

„Þetta sýnir svart á hvítu að jarð­vegurinn er frjór. Það er mikil gróska í gangi. Það eru fleiri og fleiri fyrir­tæki sem eru að taka veru­lega vaxtar­kippi, eins og Controlant, Nox Medi­cal og Kerecis. Hug­verka­iðnaðurinn hefur alla burði til að vera lang­öflugasta út­flutnings­greinin á Ís­landi ef rétt er á málum haldið. Hann getur orðið mikil­vægari en ferða­iðnaðurinn og orku­iðnaðurinn og aðrar greinar,“ segir Sigurður.

Á árum áður hafi verið talið að á hverjum ára­tug myndi eitt fyrir­tæki ná veru­legri stærð eins og Össur, Marel og CCP en nú sé slíkum fyrir­tækjum að fjölga.

Um á­hrif þessa segir Sigurður að dregið geti úr sveiflum í hag­kerfinu. „Við verðum ekki eins háð því að hingað komi ferða­menn eða að við getum veitt nógu mikinn fisk úr sjónum og svo fram­vegis. Þetta sáum við svart á hvítu á síðasta ári þegar fyrir­tæki í ferða­þjónustu urðu fyrir veru­legum sam­drætti út af Co­vid. Á sama tíma voru fyrir­tæki í hug­verka­iðnaði að ráða til sín fólk og velta þeirra jókst. Þau nýttu tæki­færið og sóttu fram.“

Sigurður segir að á­kvörðun stjórn­valda um að hækka skatta­frá­drátt vegna rann­sókna og þróunar hafi skipt miklu máli í þessu sam­hengi.

„Eina vanda­málið er að sú að­gerð er tíma­bundin og rennur út núna um ára­mótin,“ segir Sigurður. SI hafi heyrt af fyrir­tækjum sem vildu bæta veru­lega í starf­semi sína en hafi haldið að sér höndum vegna þess að það vantaði meiri fyrir­sjáan­leika. „Ég held að það sé hægt að leysa enn meiri krafta úr læðingi á þessu sviði með því að gera þessa hvata ó­tíma­bundna,“ segir hann. Þá gæti þessi iðnaður orðið stærsta stoðin í ís­lensku hag­kerfi.

„Fyrsti ára­tugur aldarinnar var ára­tugur fjár­mála­geirans, annar ára­tugurinn var ára­tugur ferða­þjónustunnar. Þriðji ára­tugurinn getur svo sannar­lega verið ára­tugur hug­verka­iðnaðar og ný­sköpunar. Við erum í dauða­færi en það er háð því að réttar á­kvarðanir verði teknar á næstu vikum og mánuðum,“ segir Sigurður.