Hrafn Steinarsson, starfsmaður í markaðsviðskiptum Arion banka, segir að hann telji að árið 2022 á skuldabréfamarkaði muni einkennast af vaxandi og fjölbreyttari markaðsfjármögnun fyrirtækja.

„Árið 2021 á skuldabréfamarkaði litaðist af miklu framboði á frummarkaði. Í byrjun árs komu fram umfangsmiklar útgáfuáætlanir ríkis og sveitarfélaga samhliða miklum hallarekstri, sem hafði sligandi áhrif á eftirmarkaðinn,“ segir Hrafn og bætir við að það hafi haft áhrif á markaðinn sérstaklega á fyrri parti ársins.

„Þá var verðbólgan fyrirferðarmikil en hún fór yfir efri vikmörk Seðlabankans strax í byrjun árs og hélt sér þar út árið. Verðbólguvæntingar hækkuðu því lengi framan af árinu en hafa komið niður síðustu vikurnar enda gera spár ráð fyrir að verðbólgan fari lækkandi á nýju ári.“

Ingólfur Snorri Kristjánsson, forstöðumaður skuldabréfa hjá Íslandssjóðum, segir að íslenskur fjármálamarkaður sé ekki eyland og að framvindan ráðist meðal annars af því hver staðan sé erlendis.

„Hvað seðlabankar gera og hvernig gengur að leysa úr framleiðslu- og flutningstruflunum og hvernig þróunin verður á orkumörkuðum hefur mikil áhrif á markaðinn hér heima. Það má lesa úr yfirlýsingu Seðlabanka Bandaríkjanna að þeir ætli að flýta hækkun vaxta og minnka magnbundna íhlutun. Hversu hratt þeir fara af stað og í hversu miklum mæli mun einnig lita alla markaði,“ segir Ingólfur og bætir við að búast megi við að áhrifin af heimsfaraldrinum muni minnka.

„Áfram horfum við á hversu hátt og hratt Seðlabankinn mun hækka vexti á árinu. Ef við horfum á ríkisbréfaferilinn í dag þá eru nú þegar talsverðar vaxtahækkanir verðlagðar inn í ferilinn."

„Hagvaxtarhorfur eru ágætar og ef spár um aukningu ferðamanna á árinu 2022 raungerast þá erum við að sjá áframhaldandi bata á vinnumarkaði og auknar útflutningstekjur sem myndu styðja við krónuna. Áfram horfum við á hversu hátt og hratt Seðlabankinn mun hækka vexti á árinu. Ef við horfum á ríkisbréfaferilinn í dag þá eru nú þegar talsverðar vaxtahækkanir verðlagðar inn í ferilinn. Miðað við ríkisbréfaferilinn þá eru markaðsaðilar að gera ráð fyrir að vextir verði hækkaðir um 1,5-2 prósent á árinu og standi í tæplega 4 prósentum í lok árs. Það eru ansi miklar hækkanir á skömmum tíma, sérstaklega í ljósi þess hversu hátt hlutfall óverðtryggð lán eru sem hlutfall af húsnæðislánum heimila og heimilin því mun næmari fyrir vaxtabreytingum nú en áður.“

Hrafn bætir við að helsta fagnaðarefnið á skuldabréfamarkaði árið 2021 sé vaxandi taktur í útgáfu fyrirtækjabréfa og hafi verið sérstaklega góður sprettur í lok árs.

„Græn fjármögnun er nú þegar orðin stór hluti af markaðinum og mun áfram ryðja sér til rúms. Þá er minni skuldabréfaútgáfa af hálfu ríkis og sveitarfélaga í ár samanborið við í fyrra og sem er jákvætt fyrir eftirmarkaðinn.“

Ingólfur bætir við að ávöxtun á skuldabréfamarkaðnum hafi verið ansi misjöfn á síðasta ári. „Verðbólga var hærri en markaðsaðilar voru að búast við í upphafi árs en hækkanir á húsnæðismarkaði hér heima, ásamt hækkandi orkukostnaði og áframhaldandi framleiðslu- og flutningstruflunum vógu þungt. Verðbólguálag á markaði hækkaði og ávöxtunarkrafa óverðtryggðra ríkisskuldabréfa hækkaði töluvert á árinu,“ segir hann og bætir við að í ljósi þessa komi það ekki á óvart að verðtryggð skuldabréf hafi haft vinninginn á síðasta ári.

„Það kemur því ekki á óvart að verðtryggð skuldabréf höfðu vinninginn eins og sést best þegar borin er saman verðtryggða vísitala Nasdaq en ávöxtunin á henni var um 6,5 prósent á árinu á meðan óverðtryggða vísitala Nasdaq skilaði -1,5 prósenta ávöxtun.“

„Kjarasamningar eru svo lausir seinna á árinu en niðurstaða þeirra getur haft mikil áhrif á hvert taumhald peningastefnunnar þarf að vera, horft fram á við, og mun því hafa áhrif á skuldabréfamarkaðinn þegar líður á árið.“

Hrafn segir jafnframt að Seðlabankinn muni halda áfram að hækka vexti á árinu og herða taumhald peningastefnunnar en líklegt sé að á endanum verði jafnvægisraunvextir töluvert lægri í lok vaxtahækkunartímabilsins en áður hefur sést.

„Kjarasamningar eru svo lausir seinna á árinu en niðurstaða þeirra getur haft mikil áhrif á hvert taumhald peningastefnunnar þarf að vera, horft fram á við, og mun því hafa áhrif á skuldabréfamarkaðinn þegar líður á árið.“

Ingólfur segir jafnframt að við höfum séð gjörbreytt landslag í útgáfum hjá öðum en ríkinu á undanförnum tveimur árum.

„Fleiri útgefendur og mun meira magn gefið út og á sama tíma stóraukin eftirspurn sem hefur smám saman lækkað skuldaraálagið. Skuldaraálag á útgáfum fasteignafélaga lækkaði til að mynda um 100 punkta á árinu og um 50-70 punkta hjá opinberum aðilum.“