Eitt af málefnum ráðstefnunnar var sjálfbærni og framtíðaröryggi í matvælaframleiðslu. Í þeirri umræðu var fjallað um framtíð próteina en áhyggjur hafa vaknað um ósjálfbærni og óumhverfisvæna framleiðslu á próteinum í heiminum í dag.
Á ráðstefnunni var einnig horft til framtíðar og hvort nóg sé af próteinum til að fæða alla heimsbyggðina. Kynntur var framtíðardiskur próteins (e. Future plate of protein) og urðu fjórar vörur fyrir valinu, þar á meðal íslenski drykkurinn Collab.
Ásamt Collab var boðið upp á hrökkbrauðið, Havsnacken, unnið úr þara frá sænska fyrirtækinu Nordic SeaFarm, ostur unninn úr gerjuðum linsu- og kjúklingabaunum frá sænska fyrirtækinu Stockeld Dreamery og að lokum var boðið upp á hamborgara unninn úr skordýrapróteini sem er framleiddur af franska fyrirtækinu Ÿnsect.
Það vakti athygli að markaðsleiðandi fyrirtæki á Íslandi væri að vinna með nýsköpunarfyrirtæki en Ölgerðin þróaði drykkinn Collab í samstarfi með Feel Iceland en eitt af aðalhráefnunum er kollagen prótein.
"Það sem vakti athygli hjá World Economic Forum er sú nýsköpun sem hefur átt sér stað þar sem við notum áður vannýtt hráefni til þess að gera hágæða kollagen prótein. Einnig vakti athygli samstarf Feel Iceland og Ölgerðarinnar sem leiddi af sér einn vinsælasta drykk Íslands þar sem eitt aðalinnihaldsefnið er unnið úr íslensku fiskroði. Það hafa komið margar góðar hugmyndir um betri nýtingu og sjálfbærari matvörur en það er ekki sjálfgefið að slíkar vörur njóti jafnmikilla vinsælda og raun ber vitni með Collab. Það þykir merkilegt og vildi World Economic Forum vekja athygli á því á ráðstefnunni", segir Hrönn Margrét Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Feel Iceland.