Iceland Water Holding, sem tappar vatni á flöskur undir merkjum Icelandic Glacial í verksmiðju í Ölfusi, hefur náð samkomulagi við samtökin Hollywood Foreign Press Association (HFPA), sem standa að baki verðlaunahátíðinni Golden Globe, um að vatnsflöskur fyrirtækisins verði til boða á hátíðinni.

„Við erum stolt af því að vera umhverfismeðvitaður samstarfsaðili Golden Globe,“ segir Jón Ólafsson, stjórnarformaður og stofnandi Icelandic Water Holdings, í samtali við The Hollywood Reporter sem greinir frá.

Verðlaunahátíðin fer fram 5. janúar og verður boðið upp á vatn frá Icelandic Glacial bæði á rauða dreglinum fyrir utan og inni í sal. Einungis verður boðið upp á vatn í glerflöskum.

„Icelandic Glacial hefur ávallt verið umhverfismeðvitað vörumerki og góðgerðarhluti þessa samstarfs var mjög mikilvægur HFPA við val á nýjum samstarfsaðila,“ segir talsmaður hátíðarinnar en Icelandic Glacial mun gefa vatn til góðgerðarmála í tengslum við samstarfið.

Tap Icelandic Water Holdings jókst um 61 prósent á milli ára og nam 25,6 milljónum dollara árið 2018. Það jafngildir um 3,2 milljörðum króna.

Tekjur félagsins jukust um 17 prósent á milli ára og námu um 20 milljónum dollara, jafnvirði um 2,5 milljarða króna. Um 93 prósent teknanna má rekja til útflutnings. Tekjur vegna sölu á Íslandi jukust um þriðjung og námu um 1,3 milljónum dollara, jafnvirði um 160 milljóna króna. Á sama tíma rúmlega tvöfölduðust vaxtagjöld félagsins á milli ára og námu þau samtals 18 milljónum dollara í fyrra.