Líftæknifyrirtækið Alvotech hefur lokið fjármögnun upp á samtals 35 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði um 4,5 milljarða íslenskra króna, en í þeim hópi sem leggja félaginu nú til nýtt hlutafé eru íslenskir fjárfestar. Þetta mun vera í fyrsta sinn sem innlendir fjárfestar, sem eru ekki hluti af stjórnendateymi félagsins, koma inn í hluthafahóp Alvotech.

Samtals hefur Alvotech sótt sér um 100 milljónir dala í nýtt hlutafé á undanförnum fjórum mánuðum.

Árni Harðarson, aðstoðarforstjóri Alvogen, sem er systurfélag og stór hluthafi í Alvotech, staðfestir í samtali við Markaðinn að gengið hafi verið frá fjámögnuninni í síðustu viku í lokuðu útboði. Auk íslensku fjárfestanna, sem lögðu fyrirtækinu til um 15 milljónir dala, jafnvirði tæplega 2 milljarða króna, komu inn nýir erlendir strategískir fjárfestar. Að sögn Árna var umframeftirspurn í útboðinu en markaðsvirði Alvotech eftir þessa síðustu fjármögnun nemur um 2,4 milljörðum dala, eða um 300 milljarðar króna.

Ekki fást upplýsingar um nöfn þeirra íslensku fjárfestu sem tóku þátt í útboðinu, sem fara nú samanlagt með undir eins prósents hlut í Alvotech, en samkvæmt heimildum Markaðarins er ekki um að ræða lífeyrissjóði. Það var verðbréfafyrirtækið Arctica Finance sem var ráðgjafi við hlutafjáraukninguna hér innanlands.

Með þeirri fjármögnun sem nú er lokið er talið að búið sé að tryggja rekstur fyrirtækisins fram að áformuðu hlutafjárútboði og skráningu á markað erlendis síðar á árinu. Stefnt hefur verið að skráningu í kauphöll í Hong Kong en samhliða er einnig horft til þess möguleika að félagið fari á markað í bandarísku kauphöllinni Nasdaq. Alþjóðlegu fjárfestingabankarnir Morgan Stanley, Goldman Sachs og HSBC verða ráðgjafar félagsins við skráningarferlið.

Alvotech, sem er stýrt af Róberti Wessman, stofnanda félagsins, hóf vinnu við útgáfu á nýju hlutafé á síðasta ári, eins og Markaðurinn hefur áður sagt frá, og var markmiðið að sækja sér samtals 100 milljónir dala. Fjárfestingin var meðal annars kynnt íslenskum fjárfestingafélögum og lífeyrissjóðum síðastliðið haust. Ekkert varð hins vegar af aðkomu þeirra þegar Alvotech lauk fyrsta áfanga fjármögnununar – upp á samtals 65 milljónir dala – í lok október.

Auk núverandi hluthafa Alvotech, sem lögðu til stóran hluta fjármagnsins, þá komu að þeirri hlutafjáraukningi fjárfestar úr lyfjageiranum í Bandaríkjunum, Evrópu og Asíu. Í þeim hópi var meðal annars þýska fjárfestingafélagið Athos Group en það fer með ráðandi eignarhlut í lyfjaframleiðandanum BioNTech sem þróaði bóluefni við COVID-19 í samvinnu við bandaríska lyfjarisann Pfizer.

Í ágúst í fyrra var tilkynnt um að Alvotech og alþjóðlegi lyfjarisinn Teva Pharmaceuticals hefðu gert með sér samstarfssamning um þróun, framleiðslu og markaðssetningu fimm líftæknilyfja í Bandaríkjunum. Mun samningurinn tryggja Alvotech tekjur upp á hundruð milljarða króna á næstu árum. Fram hefur komið í máli stjórnenda félagsins að það stefni að því að velta Alvotech verði um 20 prósent af gjaldeyristekjum þjóðarbúsins árið 2027.

Gera áætlanir ráð fyrir því að fyrirtækið ráði til sín 70 vísindamenn og sérfræðinga til viðbótar við þá 480 sem nú starfa hjá Alvotech, að stærstum hluta á Íslandi. Alvotech réðst fyrir skömmu í stækkun á hátæknisetri sínu í Vatnsmýrinni og verður það um 24 þúsund fermetrar að loknum framkvæmdum.

Í lok síðasta árs var greint frá því að Alvotech hefði fengið staðfestingu frá lyfjastofnunum í Bandaríkjunum og Evrópu um að umsókn um markaðsleyfi fyrir líftæknihliðstæðu (e.biosimilar) Humira væri komið í formlegt mat. Lyfið selst í dag fyrir um 20 milljarða Bandaríkjadala á ári á heimsvísu og er hluti af samstarfssamningi Alvotech við Teva. Búist er við að mat á umræddum umsóknum verði lokið á fjórða ársfjórðungi 2021.

Alvotech er í meirihlutaeigu Aztiq Pharma og þá er Alvogen stór hluthafi, en þar eru fyrir einir stærstu fjárfestingasjóðir í heiminum í dag, CVC Capital Management og Temasek sem er fjárfestingasjóður í Singapore. Aðrir hluthafar eru meðal annars alþjóðlegi fjárfestingasjóðurinn Yas Holding og japanska lyfjafyrirtækið Fuji Pharma.

Frá stofnun hafa hluthafar Alvotech lagt félaginu til um 340 milljónir dala en auk þess var gefið út breytanlegt skuldabréf að fjárhæð 300 milljónir dala í ársbyrjun 2019, þar sem Morgan Stanley var lykilfjárfestir, og verður því breytt í hlutabréf við skráningu erlendis.