Íslenski hlutabréfamarkaðurinn verður framvegis flokkaður sem vaxtarmarkaður hjá MSCI, sem er eitt stærsta vísitölufyrirtæki heims. Breyting á innflæðishöftum erlends gjaldeyris í byrjun mars í fyrra er ástæða breyttrar stöðu íslenska markaðarins í bókum MSCI, að því er kemur fram í tilkynningu MSCI.

Seðlabankinn breytti reglum um bindingu reiðufjár vegna nýs innstreymis erlends gjaldeyris frá eldri reglum úr 20 prósentum í 0 prósent þann 6.mars á síðsta ári. Með breytingunni í mars var síðustu leifum gjaldeyrishaftanna sem komið var á í nóvember 2008 aflétt.

„Þrátt fyrir að einhver skilyrði tengd bindiskyldu séu enn fyrir hendi [...] hefur það engin veruleg áhrif á aðgang alþjóðlegra fjárfesta að íslenska hlutabréfamarkaðnum,“ segir í umfjöllun MSCI.

Samsetning vaxtarmarkaðavísitölunnar eru endurskoðuð á sex mánaða fresti, en væntingar stóðu til þess síðasta haust að Ísland yrði tekið inn í vísitöluna þá.

„Þó að íslenski verðbréfamarkaðurinn uppfylli flest skilyrði til að verða flokkaður sem vaxtamarkaður er þessi ákvörðun byggð á frekari greiningu í kjölfar endurgjafar, þar sem alþjóðlegir stofnanafjárfestar lýstu áhyggjum yfir tilkynningarferli vegna erlendra gjaldmiðla, aðgengi að verðbréfamiðlurum, og að fjármagnshöft hafi aðeins nýlega verið afnumin,“ sagði í tilkynningu MSCI síðasta haust.

Líkur eru á að virkni á íslenska hlutabréfamarkaðnum geti aukist við þessar fregnir, þar sem fjölmörg eignastýringafyrirtæki víða um heim fjárfesta ákveðnum sjóðum í samræmi við samsetningu vísitölunnar.

Fram kemur í tilkynningu MSCI að vægi Íslands í vísitölunni verði 5.24 prósent.