Íslenski hlutabréfamarkaðurinn verður ekki flokkaður sem vaxtarmarkaður hjá MSCI, einu stærsta vísitölufyrirtæki heims, að svo stöddu. Þetta er niðurstaða MSCI eftir samráð við alþjóðlega stofnanafjárfesta en Ísland verður áfram á athugunarlista MSCI.

Í sumar var greint frá því að íslenski hlutabréfamarkaðurinn væri kominn á athugunarlista MSCI sem markaði upphaf samráðsferlis. Ef niðurstaðan yrði jákvæði yrðu skráð íslensk félög gjaldgeng í vísitölu MSCI í maí 2020. MSCI hefur nú greint frá niðurstöðunni en flokkunin er endurskoðuð á hálfs árs fresti.

„Þó að íslenski verðbréfamarkaðurinn uppfylli flest skilyrði til að verða flokkaður sem vaxtamarkaður er þessi ákvörðun byggð á frekari greiningu í kjölfar endurgjafar, þar sem alþjóðlegir stofnanafjárfestar lýstu áhyggjum yfir tilkynningarferli vegna erlendra gjaldmiðla, aðgengi að verðbréfamiðlurum, og að fjármagnshöft hafi aðeins nýlega verið afnumin“ segir í tilkynningu MSCI.

Í umfjöllun Markaðarins um virkni íslenska hlutabréfamarkaðarins sagði Jóhann Möller, forstöðumaður hlutabréfa hjá Stefni, að hann gerði sér væntingar um meiri virkni á markaðinum ef niðurstaða MSCI yrði jákvæð.

„Það eru allar líkur á því að markaðurinn muni fá aukna athygli frá erlendum fjárfestum þegar og ef markaðurinn verður gjaldgengur í vísitöluna í vor. Það er nokkur fjöldi af sjóðum úti í heimi sem fjárfesta í samræmi við vísitöluna eða hafa hana sem viðmið,“ segir Jóhann og tók dæmi um vísitölusjóð í stýringu sjóðstýringarrisans Blackrock.

Fjárfestingar sjóðsins fylgja Frontier-vísitölu MSCI og ef hann ákveður að fjárfesta á íslenska markaðinum í samræmi við stærð markaðarins í vísitölunni muni hann þurfa að kaupa íslensk hlutabréf fyrir 5,6 milljarða króna.

Þegar greint var frá því að Ísland væri komið á athugunarlistann ræddi Financial Post við nokkra erlenda sjóðstjóra um málið. Þeir höfðu á orði að líklega væri seljanleiki flestra skráðra íslenskra félaga ekki nægilegur að Marel og Arion banka undanskildum.