NASDAQ birti í morgun viðskiptayfirlit fyrir árið 2021 í kauphöllinni. „Árið 2021 markaði greinileg kaflaskil fyrir íslenska markaðinn,“ segir Finnbogi Rafn Jónsson, forstöðumaður viðskipta og viðskiptatengsla, Nasdaq Iceland. „Fjórar spennandi nýskráningar á hlutabréfamarkaðinn settu tóninn fyrir áframhaldandi innkomu almennra fjárfesta, sem létu sjá sig svo um munaði í öllum hlutafjárútboðum. Nefna má sérstaklega útboð Íslandsbanka sem var stærsta hlutafjárútboð Íslandssögunnar með þátttöku um 24 þúsund fjárfesta. Á árinu varð tæplega 80 prósenta aukning í fjölda viðskipta og fjárfestar nutu góðrar ávöxtunar þar sem Úrvalsvísitalan OMXI10 hækkaði um þriðjung á árinu. Stærð markaðarins jókst þar með um tvo þriðju á árinu. Allt þetta og meira hefur sett íslenska hlutabréfamarkaðinn á kortið hjá erlendum vísitölufyrirtækjum að auki. Þannig eru líkur á að markaðurinn færist upp um gæðaflokkun á nýju ári sem myndi laða að enn fleiri erlenda fjárfesta og aukið fjármagn, íslenskum fyrirtækjum og markaðnum í heild sinni til hagsbóta.“

Hlutabréf

  • Úrvalsvísitalan (OMXI10) hækkaði um tæp 33 prósent á árinu og stendur nú í 3.398 stigum. Heildarvísitala hlutabréfa (OMXIPI) hækkaði um 40,2 prósent.
  • Heildarviðskipti með hlutabréf á árinu námu 1.071 milljarði eða 4.285 milljónum á dag. Til samanburðar var veltan með hlutabréf árið 2020, 602 milljarðar, eða 2.417 milljónir á dag. Veltan jókst því um rúm 77 prósent á milli ára.
  • Mest viðskipti á árinu voru með bréf Arion banka (ARION), 259,8 milljarðar, Marel (MAREL), 119,9 milljarðar, Kviku banka (KVIKA), 107,3 milljarðar, Símans (SIMINN), 75,2 milljarðar og Festi (FESTI), 62,6 milljarðar.
  • Fjöldi viðskipta árið 2021 voru 100.917 talsins eða um 404 á dag. Fjöldi viðskipta árið 2020 voru 56.337 eða um 226 á dag og jukust því um 79 prósent á milli ára. Er þetta mesti fjöldi viðskipta á hlutabréfamarkaði í 14 ár.
  • Flest viðskipti voru með bréf Icelandair Group (ICEAIR), 22.546, Íslandsbanka (ISB), 13.801, Arion banka (ARION), 10.844, Marel (MAREL), 7.850 og Kviku banka (KVIKA) 6.658.
  • Á Aðalmarkaði hækkaði verð bréfa Arion banka mest á árinu eða um 100,5 prósent en þar á eftir bréf Eimskipafélags Íslands sem hækkuðu um 95,7 prósent og bréf Origo sem hækkuðu um 80,5 prósent. Á Nasdaq First North markaðnum hækkaði verð bréfa Kaldalóns mest eða um 66,7 prósent.
  • Markaðsvirði skráðra hlutabréfa var í árslok 2.556 milljarðar samanborið við 1.563 milljarða í lok árs 2020 sem er um 64 prósenta hækkun milli ára. Á árinu 2021 voru hlutabréf fjögurra fyrirtækja tekin til viðskipta, Síldarvinnslan og Íslandsbanki á Aðalmarkað og Fly Play og Solid Clouds á First North.

Verð hlutabréfa allra fyrirtækja á íslenska markaðnum nema eins hækkuðu árið 2021*:

*Í tilfelli félaga sem skráð voru á árinu er um að ræða breytingu frá útboðsgengi. Notast var við einfalt meðaltal þegar tilboðsbækur voru fleiri en ein.

Skuldabréf

  • Heildarviðskipti með skuldabréf námu 1.164 milljörðum á árinu sem samsvarar 4.658 milljóna veltu á dag, samanborið við 7.100 milljóna veltu á dag árið 2020. Velta á skuldabréfamarkaði dróst því saman um 34 prósent milli ára. Alls námu viðskipti með ríkisbréf 796 milljörðum og viðskipti með bankabréf 213 milljörðum.
  • Útgáfa sjálfbærra skuldabréfa nam 37,6 milljörðum króna á árinu og stendur heildarútgáfa nú í 113,2 milljörðum króna. Í lok árs voru 16 skuldabréf skráð á markað Kauphallarinnar fyrir sjálfbær skuldabréf og fjölgaði um 6 á árinu.
  • Aðalvísitala skuldabréfa (NOMXIBB) hækkaði um 1,2 prósent á árinu og stendur nú í 1.711,3 stigum. Óverðtryggða skuldabréfavísitala Kauphallarinnar (NOMXINOM) lækkaði um 1,5 prósent á meðan sú verðtryggða (NOMXIREAL) hækkaði um 6,5 prósent.