Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, segir að fall WOW muni líklega hafa töluverð áhrif á íslenskt efnahagslíf næstu tvö til þrjú ár. Hann segir að nú höfum við séð fyrstu viðbrögð. Að krónan hafi veikst lítillega og þann talsverða fjölda uppsagna sem fylgdu gjaldþroti flugfélagsins, en nærri tvö þúsund manns hafa samanlagt misst vinnuna frá því að félagið fór í þrot.

Þorsteinn segir þó að það sé eitt sem hafi ekki verið rætt í þessu samhengi og það sé íslenska krónan.

„Fíllinn í herberginu sem ekki er mikið ræddur í þessu samhengi er auðvitað íslenska krónan. Mikil styrking hennar á undanförnum árum hefur leitt til þess að helstu útflutningsfyrirtæki okkar eru ekki lengur samkeppnishæf. Viðkvæmust eru þau fyrirtæki sem hafa mikinn rekstrarkostnað í íslenskum krónum,“ segir Þorsteinn.

Rekstrarvandi augljós þeim sem vildu sjá

Hann segir að þar sé ferðaþjónustan áberandi en rekstrarvandi hennar hafi samt sem áður verið þeim, sem hafi viljað sjá, augljós undanfarin síðastliðin tvö ár, í það minnsta.

„Annað sjúkdómseinkenni er sú staðreynd að nær engin aukning hefur orðið á útflutningstekjum þekkingarfyrirtækja undanfarin 4 ár, en þar er launahlutfallið einmitt mjög hátt,“ segir Þorsteinn.

Þá bendir hann á aðra þætti eins og „algert agaleysi í ríkisfjármálum“ sem leiði til þess á þenslutímum að Seðlabankinn þurfi að hækka vexti meira en þörf er á, sem leiði svo aftur til þess að gengi krónunnar styrkist meira en ella.

Hann spyr því að lokum hvort ekki sé tímabært að ræða „þann skaðvald sem íslenska krónan er“ fyrir íslensk útflutningsfyrirtæki.

„Eða ætla stjórnvöld í alvörunni að reyna að halda því fram að þetta sé besti kostur okkar í gjaldmiðlamálum?“

Færslu Þorsteins má sjá hér að neðan.

Þjóðarbúið vel undirbúið

Fyrr í dag var greint frá því að Gylfi Zoega, hagfræðingur og nefndarmaður í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands,hafi í Silfrinu í morgun sagt þjóðarbúið vel í stakk búið til að takast á við mögulegan skell vegna þrots WOW Air. Hann talaði þó einnig um rekstrarvanda útflutningsfyrirtækja og þann háa launakostnað sem þau glíma við á Íslandi. Hann benti á að hlutfall launa hjá hótelum, til dæmis, hafi ekki verið hærra frá því árið 2003.

Gylfi sagði að með hóflegum launahækkunum þeirra lægst launuðu sé hægt að bregðast við skelli með því að lækka vexti. Hann kallði eftir því að verkalýðsfélögin semjum hóflegar launahækkanir fyrir þá lægst launuðu í kjaraviðræðum sem nú standa yfir.