Tækni íslenska fjártæknifyrirtækisins Memento er hryggjarstykkið í nýrri bankaþjónustu hins bandaríska Marygold&Co. sem hleypt var af stokkunum í október. Þetta segir Arnar Jónsson, framkvæmdastjóri Memento, í samtali við Markaðinn.

„Það er stórt skref fyrir okkur að stíga inn á Bandaríkjamarkað og við horfum til þess að stækka fyrirtækið hratt á næstu misserum,“ bætir hann við.

„Það er stórt skref fyrir okkur að stíga inn á Bandaríkjamarkað og við horfum til þess að stækka fyrirtækið hratt.“

Memento hyggst sækja fjármagn síðar á árinu og stefnir á frekari markaðssókn erlendis. Frá árinu 2017 hefur Memento fjárfest fyrir um 500 milljónir í innviðum. Sprotinn hefur fengið styrki frá Tækniþróunarsjóði, átt í samstarfi við Íslandsbanka um þróun á greiðsuþjónustu Kass og átt í samstarfi við Marygold&Co. og nýtt þær tekjur til að þróa tæknina.

Arnar segir að fjármálastarfsemi hafi tekið miklum breytingum á undanförnum árum, samhliða vaxandi umsvifum fjártæknifyrirtækja sem megi meðal annars rekja til þess að upplýsingar um viðskiptavini séu ekki lengur læstar hjá bönkum heldur geti fleiri fengið aðgang að þeim til að bjóða nýja þjónustu með leyfi viðskiptavina.

„Lausnir Memento eru eins konar stafræn veski,“ segir hann. Fjártæknifyrirtækið tengi saman lausnir frá fjölda tæknifyrirtækja, sem myndi heild fyrir augum viðskiptavina. Til að mynda tengi Memento saman lausnir frá tíu fyrirtækjum fyrir Marygold&co. Notendaupplifunin sé jafnframt í höndum Memento.

„Í veskinu eru til dæmis greiðsluupplýsingar, auðkenni, reikningsstaða og þar er hægt að auka heimild á greiðslukortum. Þetta er kjarninn sem nýttur er í bankaþjónustu. Greinendur spá því að um helmingur jarðarbúa muni nota stafræn veski árið 2025. Fyrirtæki geta einnig nýtt lausnina til að halda utan um vildarkerfi sem eru í raun stór hluti af bankaþjónustu. Vildarkerfi Starbucks er til að mynda afar umfangsmikið,“ segir hann.

Arnar segir að fjártæknifyrirtæki eigi almennt í nánu samstarfi. Hluti af markaðssókn Memento felst í því að treysta böndin við fyrirtæki sem bjóði upp á grunnbankatækniþjónustu en ekki notendaupplifun, viðmót og tengingar við fleiri kerfi.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Arnar segir að það sem verði byltingarkennt við lausn Memento sé að geta boðið fyrirtækjum upp á heildstætt bankaapp tengt greiðslukorti, þar sem uppsetning taki einungis um sólarhring. Um sé að ræða sambærilega þróun og átti sér stað í netverslunum. Áður fyrr urðu netverslanir að þróa eigin kerfi, en nú sé auðvelt að hefja rekstur netverslana með tækni frá Shopify, WooCommerce og fleirum. Þröskuldurinn til opna banka sé sömuleiðis nú mun lægri en áður. Tæknilega auðvelt sé að opna netbanka sem geri það að verkum að fjármálafyrirtæki geti lagt meiri áherslu á markhópagreiningu og að finna sína sérstöðu og þjónusta þá viðskiptavini vel. Dæmi um slíkt er að tvær þjónustur voru nýverið gefnar út sem eru sérsniðnar að hinsegin samfélaginu í Bandaríkjunum og þjónustur sérsniðnar að krökkum, starfsmönnum ákveðinna fyrirtækja og svo mætti lengi telja.

Arnar segir að fjártæknifyrirtæki eigi almennt í nánu samstarfi. Hluti af markaðssókn Memento felst í því að treysta böndin við fyrirtæki sem bjóði upp á grunnbankatækniþjónustu en ekki notendaupplifun, viðmót og tengingar við fleiri kerfi. Með slíku samstarfi opnist margar dyr.

Marygold&Co sniðið að þeim sem leggja ríka áherslu á sparnað

Bandaríska fjármálafyrirtækið Concierge Technologies hóf, undir merkjum Marygold&Co. að bjóða bankaþjónustu til þeirra sem leggja ríka áherslu á sparnað til þess að geta farið snemma á eftirlaun, að sögn Arnars.

Þjónusta Marygold&Co. er að öllu leyti stafræn. Bankinn rekur ekki bankaútibú heldur fer þjónustan fram í gegnum snjallsímaapp. Viðskiptavinir geta með auðveldum hætti sent greiðslur sín á milli, stýrt sparnaði og innleyst ávísanir á stafrænu formi.

Aðspurður hvernig það kom til að Memento hóf að aðstoða Marygold&Co. segir Arnar að Bandaríkjamennirnir hafi sett sig í samband við íslenska fjártæknifyrirtækið þegar það hafi verið að kynna sér markaðinn.

Memento átti að verða banki

Memento var stofnað árið 2014. Ári síðar gaf félagið út fyrsta íslenska vinagreiðsluappið, sem fékk nafnið Sway. „Upphaflega ætluðum við að reka banka og þróa nýjar lausnir á því sviði. Í ljós kom að við erum færari í að vinna með tækni en að sinna markaðs- og þjónustumálum. Við fórum því í samstarf við Íslandsbanka sem leigði tæknina frá okkur til að geta boðið upp á Kass appið. Við höfum getað þróað bankalausnina enn frekar í samstarfi við Marygold&co.“ segir hann.Starfsmenn eru tíu.