„Það er gróska í nýsköpun á Íslandi en hún einkennist af hugmyndum sem spretta upp hjá ungu fólki í háskólaumhverfinu. Aftur á móti er ekki mikið um það á Íslandi að fólk sem býr að reynslu úr ákveðnum atvinnugeirum gerist frumkvöðlar,“ segir Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri Kerecis, í ýtarlegu viðtali í Markaðinum.

Guðmundur var einn af tíu frumkvöðlum sem Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir nýsköpunarráðherra skipaði til setu í nýrri hugveitu sem var komið á fót í tengslum við umfangsmiklar breytingar á nýsköpunarumhverfinu á Íslandi.

„Þegar ég sæki nýsköpunarviðburði á Íslandi sé ég mikið af ungu fólki með eldhug en án djúprar reynslu og þekkingar úr ákveðnum starfsgreinum. Á þessu eru undantekningar en þegar ég sæki nýsköpunarviðburði erlendis er staðan önnur og meðalaldurinn virðist vel yfir 40 árum,“ segir Guðmundur.

„Við erum ekki að sjá nógu mikið af fólki með reynslu úr atvinnulífinu í nýsköpun á Íslandi. Ég held að meginviðfangsefni þessarar hugveitu snúist um það hvernig hægt sé að styrkja nýsköpunarumhverfið þannig að það verði meira aðlaðandi fyrir reynslumikið fólk að fást við nýsköpun. Viðhorfið á Íslandi hefur verið dálítið þannig að fólk eigi að fórna öllu fjölskyldulífi fyrir nýsköpun. Við verðum að hverfa frá þessari hugsun.“

„Fjárfestar vilja sjá teymi sem hefur ekki bara eina hugmynd, heldur reynslu í því að koma hugmynd í framkvæmd og á markað.“

Var reynsla úr atvinnulífinu lykilþáttur í árangri Kerecis?

„Já, árangur Kerecis felst ekki einungis í því að hugmyndin sé góð. Meginástæðan fyrir því að okkur hefur gengið svona vel er sú að við vorum með teymi sem hafði djúpa þekkingu á öllu því sem þurfti til að keyra verkefni áfram. Fjárfestar vilja sjá teymi sem hefur ekki bara eina hugmynd, heldur reynslu í því að koma hugmynd í framkvæmd og á markað. Í okkar tilfelli snýst þetta um þekkingu á einkaleyfum, fjármögnun, klínískum rannsóknum, dreifileiðum og þeim áhættum sem fyrirtækið stendur frammi fyrir. Það eru teymin sem ná árangri. Öll verkefni þar sem stofnendur einblína á eina hugmynd og tækniþekkingu en vanrækja allt hitt eru dæmd til að mistakast,“ segir Guðmundur.

Stærð styrkja skiptir máli

Samkvæmt tillögum nýsköpunarráðherra er áformuð stofnun frumkvöðlasjóðs sem mun hafa 2,5 milljarða króna til ráðstöfunar. Sjóðurinn mun bera nafnið Kría og verður hann meðfjárfestir í öðrum íslenskum frumkvöðlasjóðum og er markmiðið að auka heildarfjármagn sem er í umferð í nýsköpun á Íslandi. Frumkvöðlasjóðir eru sérhæfðir fjárfestingasjóðir sem stýrt er af aðilum með reynslu og þekkingu af sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum. Slíkir sjóðir eru frumfjárfestar í nýsköpunarfyrirtækjum og koma oft inn í fyrirtæki kjölfar árangursríkrar verkefna sem fjármögnuð hafa verið m.a. með styrkjum.

„Ef styrkir eru færri og stærri þá næst frekar til aðila sem búa að þekkingu og raunhæfum hugmyndum.“

Spurður um fjármögnunarumhverfið á Íslandi segir Guðmundur að skortur hafi verið á bæði fjármagni og nýsköpunarverkefnum þar sem öflug teymi standa að baki. Hvað fjármögnun varðar séu tillögurnar afskaplega jákvæðar og að með auknu fjármagni í umferð sé líklegra að öflug teymi úr atvinnulífinu freistist til að láta drauma um vöruþróun og nýsköpun rætast. Hann nefnir einnig að Tækniþróunarsjóður hafi hækkað styrki sína talsvert undanfarin ár sem sé mikilvægt skref til þess að ná til aðila úr atvinnulífinu.

„Það er miklu betra að vera með fáa og háa styrki heldur en marga og litla vegna þess að ef styrkirnir eru margir og litlir þá nærðu að jafnaði til yngra og reynsluminna fólks. Ef styrkir eru færri og stærri þá næst frekar til aðila sem búa að þekkingu og raunhæfum hugmyndum,“ segir Guðmundur. Þá bendir hann á að Ísland sé með fæst skráð einkaleyfi af öllum OECD-löndunum sem bendi til þess að nýsköpun sé ekki nógu mikil hér.

„Þó að við séum að standa okkur vel á sumum sviðum, eins og stoðtækjum og vinnslutækni, þá ætti að vera mun meiri nýsköpun á Íslandi. Það er líka nauðsynlegt til þess að halda uppi lífskjörum til lengri tíma.“