Íslensk fyrirtæki eru ekki nægilega opin fyrir fjölbreytni að mati Grace Achieung, stofnanda fatavörumerkisins Gracelandic og stjórnarkonu í Félagi kvenna í atvinnulífinu.
Hún skipuleggur í dag viðburð á vegum nýrrar nefndar innan FKA, sem ber heitið Nýir Íslendingar. Viðburðurinn ber heitið Fjölbreytni og nýsköpun á Íslandi en þar munu fjórar íslenskar konur af erlendum uppruna deila reynslusögu sinni.
Þar verða þær Fida Abu Libde, stofnandi og framkvæmdastjóri GeoSilica Iceland hf., Paula Gould, stofnandi Float and Gather ehf. og meðstofnandi hjá WomenTechIceland, Safa Jemai, stofnandi og forstjóri Víkonnekt ehf og Kathryn Gunnarsdóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri Geko.
Grace segir nefndina sem hún leiðir innan FKA nýja af nálinni. „Og beitir sér fyrir því að byggja brú milli kvenna af erlendum uppruna og íslenskra kvenna og stuðlar að því að konur af erlendum uppruna geti myndal gott tengslanet á Íslandi, deila reynslu og öðlast sýnileika.“
Grace segir að mikilvægt sé að konur af erlendum uppruna á Íslandi verði sýnilegri. „Mér líður eins og konur af erlendum uppruna á Íslandi séu að gera margt sem við þurfum að leyfa samfélaginu að sjá með viðburðum á borð við þennan. Þannig getum við byggt upp sterkara samfélag hér á Íslandi. Ég sjálf stend fyrir fjölbreytni, inngildingu og sjálfbærni.“
Grace segir fjölbreytni vera lykilhugtak fyrir fyrirtæki. „Rannsóknir sýna að skipulagðsheildir sem búa til fjölbreytt teymi skila meiri ávinningi og sinna nýsköpun betur. Ég sjálf átti mjög erfitt að finna vinnu með minni hæfni og það á líka við um konurnar í pallborðinu hjá okkur, þannig ég stofnaði mitt eigið fyrirtæki sem er Gracelandic.“
Aðspurð hvort að fyrirtæki á Íslandi séu opin fyrir fjölbreytni og nýsköpun segist Grace ekki telja svo vera.
„En við erum að læra saman. Ég held að fyrirtæki verði að endurskilgreina hvað fjölbreytni þýðir. Hversu fjölbreytt er fyrirtækið þitt og iðnaður? Ert þú að hvetja til fjölbreytni og nýsköpunar í þínu fyrirtæki? Er grundvöllur fyrir fjölbreytni á Íslandi? Það eru spurningar sem fyrirtæki verða að svara,“ segir Grace.
Hún segir teymi starfsfólks með mismunandi menningarbakgrunn, aldur, kyn og reynslusögur einfaldlega hafa víðari sýn á heiminn. „Þau skapa betur, finna nýjar lausnir á annan máta og leysa vandamál betur, að okkar mati í nefndinni,“ segir Grace.
„Ég myndi segja að konur af erlendum uppruna hafi þurft að sætta sig við störf sem eru langt fyrir neðan þeirra menntun og hæfni. Konur sem hafa menntun, sérfræðikunnáttu og reynslu en fá ekki störf við hæfi og þurfa því að taka hverju sem býðst til að komast af og borga reikninga. Yfirleitt eru það láglaunastörf. Ég hef verið í þeirri stöðu sjálf, en þetta er bara umræða sem við verðum að tala um saman án þess að dæma hvort annað og finna lausnir saman. Við erum ósköp einfaldlega öll hérna á Íslandi,“ segir Grace.
„Þegar íslenskir vinnuveitendur og samfélagið sem heild lærir að stíga út fyrir þægindarammann þá munu góðir hlutir gerast. Í nútímanum er mestur styrkur fólginn í samkennd og fjölbreytileika. Vegna þess að þegar fleiri frá mismunandi stöðum, með mismunandi bakgrunn vinna saman á heilnæman hátt þá getum við deilt hæfni okkar og reynslu og byggt upp óendanlega þekkingu.“