Um 90 prósent stjórnenda íslenskra fyrirtækja búast við að netárásir færist í aukana á þessu ári. Þar af búast 15 prósent við mikilli aukningu netárása og 75 prósent við nokkurri aukningu. Þetta er niðurstaða könnunar Gallup sem var gerð fyrir Origo.

Í tilkynningu frá Origo segir að stjórnendur erlendis virðast deila sömu áhyggjum, ef marka má aðrar greiningar og kannanir. Lítill munur var á viðhorfi fyrirtækja á neytendamarkaði eða fyrirtækjamarkaði eða út frá stærða eða veltu.

,,Vaxandi áhyggjur af netárásum einskorðast ekki aðeins við Ísland en víða er gert ráð fyrir að fjöldi árása fari vaxandi og um leið sá kostnaður sem hlýst af slíkum árásum, ef marka má colbat.io. Þá segir í könnun PWC að 71 prósent æðstu stjórnenda fyrirtækja í Bandaríkjunum hafi miklar áhyggjur af netárásum," segir Inga Steinunn Björgvinsdóttir, sölustjóri skýja- og öryggislausna hjá Origo.

Úrtakið voru fyrirtæki með fjóra starfsmenn eða fleiri, handahófsvalin úr fyrirtækjaskrá og viðhorfshópi Gallup. Gagnaöflun stóð yfir þar til u.þ.b. 400 svörum var náð.

Könnun Gallup og Origo var gerð í tengslum við vefvarp Origo þann 15. apríl með Charlie McMurdie, einum helsta sérfræðingi heims í netöryggi og aðgerðum gegn tölvuárásum. McMurdie starfaði í 32 ár í lögreglunni í Bretlandi þar sem hún stofnaði og stýrði tölvudeild sem tókst á við tölvuglæpi og netárásir. Hún starfaði einnig í netöryggissveitinni fyrir Ólympíuleikana í London 2012 og var síðast yfirráðgjafi tölvubrota hjá PwC.

Í vefvarpnu mun McMurdie ræða sína reynslu af stórum verkefnum, svo sem frá Ólympíuleikunum í Lundúnum, aukna getu tölvuþrjóta til þess að herja á fyrirtæki og einstaklinga og hvernig við getum brugðist við þessari vaxandi óárán.