Árlegu átaki Krabbameinsfélagsins, undir yfirskriftinni Mottumars, var ýtt úr vör í síðustu viku en átakinu er ætlað til að vekja athygli á baráttunni gegn krabbameini í körlum.

Auglýsingastofan Tvist á veg og vanda að herferðinni í ár og segja stofnendur stofunnar gríðarlega mörg handtök liggja að baki markaðsefni af þessari stærðargráðu.

„Samtalið við Krabbameinsfélagið hófst í lok síðasta árs en svo tók við hugmyndavinna í janúar. Þá fór átakið fyrst að taka á sig mynd og undirbúningurinn fór á fullt,“ segir Sigríður Ása Júlíusdóttir, grafískur hönnuður og einn af höfundum herferðarinnar.

Hún segir það vissulega mikla ábyrgð að leiða Mottumars því herferðin sé með þeim stærri ár hvert á Íslandi.

Við rukum til og settum enskan texta í loftið þegar við sáum hvað var að gerast.

„Þetta er mikill heiður því Mottu­mars er orðinn þannig vörumerki að okkur leyfist að fara í mjög frumlegar áttir með þetta alvarlega málefni.“

Kári Sævarsson, einn af eigendum Tvist, segir herferðina beinast að frestunaráráttu karla í ár. Sú hugmynd hafi legið beint við og kviknað mjög snemma í ferlinu.

„Fyrir Mottumars þá skiptir máli að vera með réttu blönduna af ferskleika en passa samt upp á að efnið rími við það sem herferðin hefur tekið fyrir áður.

Vegna þess hversu vel hefur tekist til hingað til, þá leyfist okkur að leika okkur að og grínast með þetta erfiða og þunga viðfangsefni. Það eru heilmikil verðmæti fólgin í því fyrir vörumerkið.“

Enda séu allir til í að taka þátt í verkefninu þegar eftir því er leitað að hans sögn. Hvort sem um er að ræða þjóðþekkta einstaklinga eða tæknifólk sem vinnur á bak við tjöldin. „Málefnið snertir alla og hefðin í kringum skilaboðin er svo falleg,“ segir Kári.

Auglýsingin fór í loftið í síðustu viku en eftir að einn af leikurunum, Haraldur Þorleifsson, deildi henni á samfélagsmiðlum fór hún á gríðarlegt flug erlendis, með ófyrirséðum afleiðingum.

Stærsta ástæða þessarar miklu útbreiðslu er að tíst Haraldar kom beint í kjölfar frægrar ritdeilu hans og bandaríska auðkýfingsins Elon Musk, einmitt á Twitter.

Auglýsingin hefur þegar náð yfir 23 milljónum birtinga á samfélagsmiðlinum.

„Það hefur verið með hreinum ólíkindum að fylgjast með þessu. Og sjá öll þessi viðbrögð fólks sem hvorki skilur það sem sagt er né tengir við séríslenskar tilvísanir í auglýsingunni,“ segir Kári.

„Við rukum til og settum enskan texta í loftið þegar við sáum hvað var að gerast.

En komumst um leið að því að Mottumars á auðvitað erindi við fólk um allan heim, þótt skilaboðunum hafi verið beint að Íslendingum sérstaklega. Það tengja allir við þessa sammannlegu frestunaráráttu í tengslum við heilsu. Enda var það hugsunin með herferðinni,“ segir Sigríður.

„Mottumars tekst alltaf að aftengja ákveðnar sprengjur sem umlykja þetta málefni, ef svo má að orði komast,“ bætir Kári við.

„Þetta er herferð sem vekur fólk ekki bara til til umhugsunar, heldur vonandi breytir hegðun þess. Þar liggur galdurinn og við erum óskaplega stolt af því að hafa tekið þátt í þessu,“ segir Kári.

Hægt er að hlusta á hlaðvarpsútgáfu Markaðarins á helstu hljóðvarpsveitum: