Lars Ragnar Solberg, norskur ráðgjafi hjá AFRY Consulting Management, segir kaup upprunaábyrgða á endurnýjanlegri orku ekki vera dæmi um grænþvott. Hann viðurkennir að kerfið sé flókið en telur að sameiginlegt sölukerfi þurfi að vera við lýði á Evrópumarkaðnum.
Lars var einn þeirra ræðumanna sem héldu erindi á opnum fundi Landsvirkjunar um upprunaábyrgðir á Reykjavík Hilton Nordica í gær.
Ný reglugerð tók gildi um áramót og þurfa íslenskir raforkusalar nú að greiða orkuframleiðendum fyrir upprunavottorð vilji þeir markaðssetja orku sína sem græna. Vottorðin, sem fylgdu áður ókeypis með til raforkusala, verða þess í stað seld á evrópskum markaði.
Hann segir umræðuna um upprunaábyrgðir vera mjög svipaða í Noregi og á Íslandi. Báðar þjóðir noti nær eingöngu endurnýjanlega orku, eru báðar tengdar Evrópumarkaði án þess að vera meðlimir í Evrópusambandinu og innlimuðu einnig sölukerfi upprunaábyrgða á svipuðum tíma.
„Íslendingar hefðu aldrei fundið upp á þessu kerfi til að byrja með þar sem þið notið nú þegar 100 prósent endurnýjanlega orku. Hins vegar eruð þið hluti af stærri markaði og þó svo að þið séuð ekki að flytja út orkuna ykkar þá eruð þið að flytja út vörur og þjónustu. Með það í huga þurfið þið að fylgja þeim kröfum sem evrópskir neytendur setja.“

Hann segir núverandi orkukrísu sem Evrópubúar standa frammi fyrir hafa haft eitt jákvætt í för með sér, hún hafi skapað mun meiri vitundarvakningu meðal íbúa um orkuna sem þeir nota og hvaðan hún kemur. Mörg fyrirtæki í Evrópu setja nú miklar kröfur um notkun á endurnýjanlegri orku og hafa Norðmenn meðal annars selt 70 prósent af upprunaábyrgðum sínum til evrópskra fyrirtækja.
Lars segir aftur á móti að kerfið sé ekki fullkomið og myndi hann gjarnan vilja sjá meira gegnsæi þegar kemur að sölu upprunaábyrgða. Hann lítur á upprunaábyrgð sem alþjóðlegan gjaldmiðil þegar kemur að grænni orku og þvertekur fyrir að um grænþvott sé að ræða.
Hann segir að evrópsk fyrirtæki sem kaupa ekki vottun og fylgja ekki evrópskum stöðlum geti ekki haldið því fram að þau séu að styðja við græna orku. Ef þýskt fyrirtæki myndi til dæmis kaupa íslenska upprunaábyrgð þá væri það dæmi um góða ákvörðun frekar en slæma.
„Þetta er heldur ekki eina tólið sem við höfum þegar kemur að breytingum tengdum umhverfismálum. Hins vegar ef þú fjarlægir þetta kerfi í Evrópu þá ert þú líka að fjarlægja tækifæri stórra fyrirtækja til að sanna jákvæðu áhrifin sem þau hafa með kaupum á rafmagni,“ segir Lars.
Hann bætir við að stærstu fyrirtækin sem taka þátt í þessu kerfi segist einnig fjárfesta í endurnýjanlegri orku á öðrum sviðum og vilji sýna fram á aukna skilvirkni. Aftur á móti þurfa þau á þessu bókhaldskerfi að halda til að geta sannað þær fullyrðingar.