Íslendingar eru þegar farnir að skipuleggja utanlandsferðir á komandi sumri og líta annars vegar til suður-Evrópu og hins vegar Skandinavíu að sögn framkvæmdastjóra sölu og þjónustu hjá Icelandair.

Tenerife virðist í fljótu bragði ætla að verða vinsælasti áfangastaðurinn. Aðspurð um innanlandsferðir segir Birna Ósk Einarsdóttir að Íslendingar eigi til að panta þær með skemmri fyrirvara.

„Ég held að þetta verði svolítið blandað sumar. Íslendingar munu fara erlendis en líka ferðast innanlands eftir að hafa kynnst landinu upp á nýtt í fyrra,“ segir Birna Ósk í samtali við Fréttablaðið.

Ferðasumarið í ár verður að sjálfsögðu ekki í neinum líkindum við stöðuna fyrir heimsfaraldur en Íslendingar eru þó að líta meira til útlanda en þeir gerðu á sama tíma í fyrra. Nú þegar bólusetningar eru hafnar virðist fólk bjartsýnna en áður og þorir frekar að bóka utanlandsferðir.

„Fólk er alveg að þora að bóka og við sjáum á Íslandsmarkaði að fólk er að byrja að gera plön. Bókunarskilmálar eru sveigjanlegir svo fólk er að taka sénsinn því það veit að það getur frestað ferðinni. Þetta er einfaldara í ár en það hefur verið,“ segir Birna Ósk.

Íslendingar bóka ferðir innanlands með skömmum fyrirvara en eru þegar farnir að huga að utanlandsferðum fyrir ferðasumarið 2021.
Fréttablaðið/Stefán Karlsson

Eins og stendur eru meira af bókunum til Evrópu en Norður-Ameríku, enda enn lokað á milli Schengen og Bandaríkjanna. Þeir áfangastaðir sem heilla mest að sögn Birnu eru Suður-Evrópustaðir eins og Tenerife, Mílanó og Madríd og svo borgir nær Íslandi eins og Kaupmannahöfn, Berlín og London.

„Þetta er það sem við sjáum nú þegar, en klárlega mikið eftir enn og óvissan mikil, sem gerir það að verkum að við erum að reikna með því að ákvarðanir um ferðir verði teknar mjög nálægt brottför þegar meira verður ljóst um þróun veirunnar, bólusetningar og landamæramál. Forsenda þessa alls er auðvitað nýjar landamærareglur á Íslandi sem taka gildi þann 1.maí næstkomandi sem eru bæði mjög góðar til að taka mið af stöðunni erlendis, tryggja áhættustjórnun og til að opna hægt og rólega á ferðir bæði Íslendinga erlendis og ferðamanna hingað til lands.“