Sjóðastýringafyrirtækið Íslandssjóðir, dótturfélag Íslandsbanka, og Útgerðarfélag Reykjavíkur (ÚR), sem er ráðandi hluthafi í Brimi, hafa skrifað undir viljayfirlýsingu um stofnun 10 milljarða króna sjóðs sem mun sérhæfa sig í fjárfestingum í sjávarútvegi og haftengdri starfsemi.

Útgerðarfélag Reykjavíkur, sem er í meirihlutaeigu Guðmundar Kristjánssonar, forstjóra Brims, hefur skuldbundið sig til að vera stór kjölfestufjárfestir í sjóðnum en Íslandssjóðir munu sjá um stýringu hans.

Samkvæmt upplýsingum frá Íslandssjóðum verður lögð áhersla á vaxtatækifæri í bland við þroskaðri fjárfestingar, ásamt því að líta til sjálfbærrar þróunar í sjávarútvegi, meðal annars með bættri nýtingu orku og hráefnis.

Kjartan Smári Höskuldsson, framkvæmdastjóri Íslandssjóða, segir að það séu að verða ákveðin vatnaskil hjá mörgum sjávarútvegsfyrirtækjum sem hafi hingað til verið lokuð fjárfestum.

„Við höfum nú gengið til samstarfs við eitt fremsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins til að nýta þau tækifæri sem við sjáum í fjárfestingum í sjávarútvegi, til að mynda í tækni- og þekkingarfyrirtækjum tengdum greininni, fiskeldi og fullvinnslu afurða. Það er von okkar að sjóðurinn muni þannig stuðla að frekari vexti í þessari undirstöðuatvinnugrein.“

Runólfur Viðar Guðmundsson, framkvæmdastjóri ÚR, segir að samstarf við Íslandssjóði, sem eru með eignir í stýringu að fjárhæð samtals um 350 milljarða króna, um uppbyggingu og rekstur fjárfestingasjóðs nýti vel sérþekkingu starfsfólks útgerðarfélagsins í sjávarútvegi við frekari verðmætasköpun.

„Þá um leið,“ útskýrir Runólfur, „deilum við með öðrum fjárfestum áhættunni sem því fylgir og uppskerunni þegar að henni kemur. Með fjárfestingum í Brimi hefur ÚR komið að uppbyggingu eins öflugasta sjávarútvegsfyrirtækis landsins en við teljum að tækifærin í greininni liggi víðar. Við ætlum að halda áfram að taka þátt í frekari þróun og uppbyggingu í sjávarútvegi og tengdri starfsemi í gegnum samstarf okkar við Íslandssjóði.“


Virðið gæti aukist um 85 prósent


Í skýrslu sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kynnti í síðasta mánuði um stöðu og horfur í atvinnugreininni, kom fram að gert væri ráð fyrir því að útflutningsverðmæti í sjávarútvegi ættu eftir að aukast mikið á næstu árum. Þannig var samanlagt virði framleiðslu sjávarútvegs, fiskeldis og tengdra greina um 332 milljarðar árið 2019, en skýrsluhöfundar telja að virði framleiðslunnar gæti orðið 615 milljarðar króna árið 2030. Árið 2030 hefði virði framleiðslunnar þannig aukist um 85 prósent frá árinu 2019.

Brynjólfur Stefánsson, forstöðumaður sérhæfðra verkefna Íslandssjóða, Kristrún Viðarsdóttir, fjárfestingastjóri hjá Íslandssjóðum, Kjartan Smári Höskuldsson, framkvæmdastjóri Íslandssjóða, Runólfur Guðmundsson framkvæmdastjóri ÚR, Jónas Engilbertsson, ÚR

Útgerðarfélag Reykjavíkur hefur fjárfest í aflaheimildum og ýmsum sjávarútvegsfyrirtækjum hér á landi og á Grænlandi. Eignir félagsins stóðu í 430 milljónum evra, jafnvirði um 64 milljarða íslenskra króna í árslok 2020, og er eiginfjárhlutfall ÚR um 57 prósent.

Rekstur ÚR er í dag einkum þríþættur. Í fyrsta lagi er útgerðarfélagið hefðbundið, sérhæft sjávarútvegsfyrirtæki, sérhæft í rekstri frystitogara. Þá er félagið sem fyrr segir stærsti hluthafinn í Brimi, annars af tveimur útgerðarfyrirtækjum sem eru skráð á hlutabréfamarkað á Íslandi, og í þriðja lagi vinnur ÚR að nýsköpun og vöruþróun í sjávarútvegi í gegnum dótturfélagið ÚR Innovation, sem var stofnað í fyrra.

Það eru að verða ákveðin vatnaskil hjá mörgum sjávarútvegsfyrirtækjum sem hafa hingað til verið lokuð fjárfestum

Í samtali við Markaðinn af því tilefni sagði Runólfur, sem er jafnframt framkvæmdastjóri ÚR Inno­vation, að horft yrði til fjárfestinga í bláa hagkerfinu og því græna. Bláa hagkerfið tengist hafinu og það græna umhverfismálum.

„Fjárfestingar í bláa hagkerfinu munu snúa annars vegar að líftækni og skyldum greinum og hins vegar verður horft til fjárfestinga í miðsjávarfiskveiðum, eða veiðum á tegundum á borð við kríli og smokkfisktegundir,“ sagði hann