Sjóðir í stýringu Íslandssjóða, dótturfélags Íslandsbanka, lögðu hinu verðandi flugfélagi Play til jafnvirði um 400 milljóna íslenskra króna í hlutafjárútboðinu sem lauk fyrr í þessum mánuði. Eignarhlutur Íslandssjóða, samkvæmt heimildum Markaðarins, í Play verður í kjölfarið um fimm prósent.

Íslandssjóðir komu að hlutafjárútboðinu á lokametrunum í síðustu viku, nokkrum dögum eftir að það hafði í reynd formlega klárast, en heildarstærð þess reyndist að lokum vera rúmlega 47 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði um sex milljarða íslenskra króna. Félagið áformar, eins og Markaðurinn hefur áður sagt frá, að afla sér um 20 milljóna dala til viðbótar með almennu útboði samhliða skráningu á First North-markaðinn í Kauphöllinni í júní næstkomandi.

Stærstu fjárfestarnir í nýafstöðnu, lokuðu hlutafjárútboði Play, sem Arctica Finance hafði umsjón með, voru hins vegar fjárfestingafélagið Fiskisund, sem Einar Örn Ólafsson, fjárfestir og nýr stjórnarformaður Play, fer fyrir og lífeyrissjóðurinn Birta. Fjárfesting þeirra nam tæplega milljarði króna, hvors um sig.

Aðrir helstu hluthafar Play eru fjárfestingafélagið Stoðir, sem skráði sig fyrir rúmlega 600 milljónum í útboðinu, og sjóðir í stýringu Akta. Eignarhlutur annarra fjárfesta sem komu að útboði Play, eins og eigenda Langasjós, sem á heildverslunina Mata og fjárfestingafélagið Brimgarða, tryggingafélagið VÍS og lífeyrissjóðsins Lífsverks var hins vegar litlu minni.

Í hópi einkafjárfesta sem bættust við hluthafahóp Play eru einnig félög í eigu Kristjáns M. Grétarssonar, eins hluthafa í Keahótelum, og bræðranna Björns Ólafssonar, framkvæmdastjóra ferðaþjónustufyrirtækisins Þríhnjúkagígs, og Sigurðar Ólafssonar, framkvæmdastjóra hjá Grósku hugmyndahúsi í Vatnsmýrinni, en það er einkum í eigu fjárfestingafélagsins Novator.

Þá fjárfesti Guðmundur Þórðarson, stór hluthafi í Kviku og varaformaður stjórnar bankans, sömuleiðis í Play í útboðinu, samkvæmt heimildum Markaðarins.

Á hluthafafundi Play mánudaginn 12. apríl síðastliðinn, þar sem meðal annars var kjörin ný stjórn og gengið frá ráðningu Birgis Jónssonar sem forstjóra, var samþykkt að breyta 10 milljóna dala skuldbindingu Play við eignarhaldsfélagið FEA, sem Elías Skúli Skúlason hefur einkum farið fyrir, í hlutafé. Félagið FEA er stærsti hluthafi Play eftir útboðið með um fimmtungshlut.

Í skýrslu sem var lögð fyrir hluthafafundinn kemur fram að FEA hafi fjármagnað rekstur Play með vaxtalausum lánveitingum frá því í desember 2019. Nokkrum mánuðum síðar varð FEA eigandi alls hlutafjár í Play. Við mat á því hvort verðmat þeirra greiðslna sem FEA hefur ráðstafað til Play sé í samræmi við endurgjald, var horft til virðismats á flugfélaginu. Það mat byggir á áætlunum félagsins eins og þær voru lagðar fram af stjórnendum þar sem gert er ráð fyrir að Play byrji að flytja sína fyrstu farþega síðar á þessu ári.

Play hefur þegar tryggt sér þrjár Airbus A321 leiguflugvélar til þess að hefja áætlunarflug til vinsælla áfangastaða íslenskra ferðamanna. Þá gera áætlanir Play ráð fyrir því að flugvélafloti félagsins stækki í sex til átta þotur vorið 2022 og verði kominn í yfir tíu vélar á árinu 2023.