Ríkissjóður hefur veitt Íslandspósti 500 milljóna króna lán til allt að 12 mánaða til að styrkja lausafjárstöðu félagsins, með fyrirvara um heimild í fjáraukalögum.

Þetta kemur fram í frétt á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Þar segir að Íslandspóstur þurfi á fjármagni að halda til að viðhalda rekstrarfjármunum sem og til að styrkja lausafjárstöðu félagsins. Þrátt fyrir aukna lántöku undanfarin ár sé þörf á meira lausafé, allt að 500 milljónir króna, til að standa undir skuldbindingum næstu mánuðina og fyrirsjáanlegum taprekstri á yfirstandandi ári. 

Þá kemur fram að undanfarinn áratug hafi bréfasendingum farið ört fækkandi um allan heim. Á sama tíma hafi netverslun rutt sér til rúms og pakkasendingum fjölgað. Tekjur af bréfasendingum vegna alþjónustu hafi dregist saman á sama tíma og dreifikerfið hafi stækkað með fjölgun íbúða og fyrirtækja. 

„Þessi þróun hefur haft neikvæð áhrif á efnahag og lausafjárstöðu félagsins. Þótt eiginfjárstaða sé enn sterk þarf að styrkja rekstrargrundvöll félagsins til framtíðar eigi það að geta gegnt hlutverki sínu,“ segir í fréttinni.