Íslandspóstur hagnaðist um 104 milljónir króna á síðasta ári samanborið við tap upp á 511 milljónir árið árið 2019. Þetta kemur fram í afkomutilkynningu frá ríkisfyrirtækinu.

Rekstrartekjur námu rúmum 7.457 milljónum króna og lækkuðu frá fyrra ári þegar þær námu 7.745 milljónum. EBITDA – afkoma fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta – nam 676 milljónum króna í fyrra en var 266 milljónir árið 2019.

Stöðugildum fækkaði alls um tæp 17 prósent á milli ára. Þau voru 601 í árslok 2020 samanborið við 721 í árslok 2019. Þá lækkuðu vaxtaberandi skuldir úr 1.953 milljónum króna niður í 1.635 milljónir á milli ára.

Þórhildur Ólöf Helgadóttir, forstjóri Íslandspósts, segir árangurinn alls ekki sjálfgefinn. „Endurskipulagning og niðurgreiðsla langtímalána hefur létt umtalsvert á félaginu og okkur tókst með samstilltu átaki stjórnar og starfsfólks að bregðast við tekjuminnkun vegna minni inn- og útflutnings.“