Baldur Ólafsson, markaðsstjóri Bónuss, segir að tískulína fyrirtækisins eigi rætur að rekja til ársins 2019 þegar hann fór að finna fyrir mikilli eftirspurn eftir fatnaði frá erlendum ferðamönnum sem versluðu í búðinni.
„Það var mikið spurt hvort við værum með einhvern fatnað frá erlendum aðilum sem komu til Íslands og elskuðu landið. Þeir hafa þá verið að versla í Bónus og tekið einhverju ástfóstri við búðina. Kannski líka af því við erum alltaf með ódýrustu körfuna og erum þar af leiðandi að hjálpa þeim í þessu dýra landi sem við erum í,“ segir Baldur.
Hann bætir við að það veiti ferðamönnum ákveðið öryggi að Bónus sé með sama verð alls staðar á landinu og að það gæti líka útskýrt það jákvæða viðhorf sem útlendingar hafa til verslunarinnar. Baldur segist hafa fengið á seinustu misserum nánast vikulegar fyrirspurnir en að ekki hafi myndast neinn tími til að mæta þeim fyrr en í haust.
„Við byrjuðum á að setja þetta inn í verslanir fyrir innanlandsmarkað í tilefni Menningarnætur og við höfðum þá spurt á Facebook: Er Bónus menning? Í kjölfarið var nánast áhlaup á búðina og öll fötin seldust bara strax upp.“
Bónusverslanir í Kjörgarði og Smáratorgi voru þær fyrstu sem buðu upp á fatnaðinn en til að mæta eftirspurninni var ákveðið að bæta við fötum í verslanir í Borgarnesi, á Akureyri, Selfossi, Hveragerði og við Fitjar.
Baldur segir það einnig gott að geta heiðrað gamla grísinn og gefið honum líf, en Bónus gerði breytingar á útliti gríssins og leturgerðinni sem var notuð í firmamerki verslana í fyrra. Hann segir tímasetninguna ekki vera hluta af neinu samsæri til að selja fatnað en að það sé skemmtilegt að geta selt báða grísina.
Að sögn markaðsstjóra er erfitt að sjá aldurshóp kaupenda en samkvæmt nöfnum viðskiptavina virðist meirihluti þeirra vera Íslendingar, eða um fjórir af hverjum fimm. Engu að síður sé mikið um stórar pantanir að utan.
„Fólk gengur í alls konar vörumerkjum. Ef það gengur í 66°Norður, af hverju ekki Bónus?“
„Það var til dæmis ein pöntun í morgun frá Taívan og það var engin smá pöntun. Hún var alveg yfir 100 þúsund krónur bara í fatnaði. Ég held að það hafi verið 16 litlir retro bolir, sex miðstærðarbolir og níu stórir bolir. Svo ofan á það voru pantaðir 17 bónuspokar og derhúfur með.“
Baldur segist hafa spurt einstaklinginn sem pantaði að gamni hvort hann ætti stóra fjölskyldu.
„Þá er þetta víst þannig að þetta er einhver 1.500 manna hópur í Taívan sem elskar Ísland og elskar Bónus sem er að panta saman.“ Hann bætir við: „Fólk gengur í alls konar vörumerkjum. Ef það gengur í 66°Norður, af hverju ekki Bónus?“ spyr Baldur.