Baldur Ólafs­son, markaðs­stjóri Bónuss, segir að tísku­lína fyrir­tækisins eigi rætur að rekja til ársins 2019 þegar hann fór að finna fyrir mikilli eftir­spurn eftir fatnaði frá er­lendum ferða­mönnum sem versluðu í búðinni.

„Það var mikið spurt hvort við værum með ein­hvern fatnað frá er­lendum aðilum sem komu til Ís­lands og elskuðu landið. Þeir hafa þá verið að versla í Bónus og tekið ein­hverju ást­fóstri við búðina. Kannski líka af því við erum alltaf með ó­dýrustu körfuna og erum þar af leiðandi að hjálpa þeim í þessu dýra landi sem við erum í,“ segir Baldur.

Hann bætir við að það veiti ferða­mönnum á­kveðið öryggi að Bónus sé með sama verð alls staðar á landinu og að það gæti líka út­skýrt það já­kvæða við­horf sem út­lendingar hafa til verslunarinnar. Baldur segist hafa fengið á seinustu misserum nánast viku­legar fyrir­spurnir en að ekki hafi myndast neinn tími til að mæta þeim fyrr en í haust.

„Við byrjuðum á að setja þetta inn í verslanir fyrir innan­lands­markað í til­efni Menningar­nætur og við höfðum þá spurt á Face­book: Er Bónus menning? Í kjöl­farið var nánast á­hlaup á búðina og öll fötin seldust bara strax upp.“

Bónus­verslanir í Kjör­garði og Smára­torgi voru þær fyrstu sem buðu upp á fatnaðinn en til að mæta eftir­spurninni var á­kveðið að bæta við fötum í verslanir í Borgar­nesi, á Akur­eyri, Sel­fossi, Hvera­gerði og við Fitjar.

Baldur segir það einnig gott að geta heiðrað gamla grísinn og gefið honum líf, en Bónus gerði breytingar á út­liti gríssins og letur­gerðinni sem var notuð í firma­merki verslana í fyrra. Hann segir tíma­setninguna ekki vera hluta af neinu sam­særi til að selja fatnað en að það sé skemmti­legt að geta selt báða grísina.

Að sögn markaðs­stjóra er erfitt að sjá aldurs­hóp kaup­enda en sam­kvæmt nöfnum við­skipta­vina virðist meiri­hluti þeirra vera Ís­lendingar, eða um fjórir af hverjum fimm. Engu að síður sé mikið um stórar pantanir að utan.

„Fólk gengur í alls konar vöru­merkjum. Ef það gengur í 66°Norður, af hverju ekki Bónus?“

„Það var til dæmis ein pöntun í morgun frá Taí­van og það var engin smá pöntun. Hún var alveg yfir 100 þúsund krónur bara í fatnaði. Ég held að það hafi verið 16 litlir retro bolir, sex mið­stærðar­bolir og níu stórir bolir. Svo ofan á það voru pantaðir 17 bónus­pokar og der­húfur með.“

Baldur segist hafa spurt ein­stak­linginn sem pantaði að gamni hvort hann ætti stóra fjöl­skyldu.

„Þá er þetta víst þannig að þetta er ein­hver 1.500 manna hópur í Taí­van sem elskar Ís­land og elskar Bónus sem er að panta saman.“ Hann bætir við: „Fólk gengur í alls konar vöru­merkjum. Ef það gengur í 66°Norður, af hverju ekki Bónus?“ spyr Baldur.