Maður að nafni Wenceslaus Muenyi ákvað að hanna bakteríudrepandi nærbuxur og annan fatnað eftir ferðalag til Íslands. Muenyi, sem er bandarískur með kamerúnskar rætur, kom aðeins með einn bakpoka af fötum með sér og eftir að hafa notað þau einu sinni byrjuðu þau að lykta. Fékk hann þá þessa frumlegu hugmynd.

Efnið ber nafnið HercFiber og hefur fatnaðurinn verið fjármagnaður í gegnum hópfjármögnun. Það er ofið úr bambus, júkalyptus, beyki og koparþráðum. Á þessi blanda að koma í veg fyrir eða hægja á myndun örvera sem gefa frá sér lykt. HercLeon, fyrirtæki Muenyi, mælir með því að viðra brækurnar einu sinni á dag. Það getur komið lykt í þær en hún situr þó ekki föst eins og í bómull eða pólýester.

Þó að áherslan hafi verið mest á nærfatalínuna, sem ber nafnið Kribi, þá hefur Muenyi einnig hannað ýmislegt annað, svo sem sokka, stuttermaboli, derhúfur, lök, koddaver og andlitsgrímur.