Greining Íslandsbanka spáir því að vísitala neysluverðs hækki um 0,6 prósent í nóvember frá fyrri mánuði. Ef spáin rætist mun 12 mánaða verðbólga mælast 5,1 prósent en var 4,5 prósent í október. Verðbólga hefur ekki mælst svo mikil í 9 ár. Þetta kemur fram í greiningu sem bankinn birti.

„Við teljum að verðbólga muni aukast enn frekar á næstu mánuðum áður en hún tekur að hjaðna. Helsta ástæða aukinnar verðbólgu eru íbúðaverðshækkanir ásamt innfluttri verðbólgu sem hefur látið á sér kræla að undanförnu,“ segir í greiningunni sem rituð er af Bergþóru Baldursdóttur hagfræðingi.

Verðbólguhorfur versnað

Greining Íslandabanka segir að verðbólguhorfur hafi versnað frá síðustu spá og telur að verðbólga verði komin við markmið Seðlabankans í byrjun árs 2023. Markmiðið er 2,5 prósent. Hagstofan birtir vísitölu neysluverðs fyrir nóvember þann 25. nóvember næstkomandi.

„Líkt og síðustu mánuði er það hækkandi íbúðaverð sem vegur þyngst til hækkunar á vísitölunni í nóvember. Reiknaða húsaleigan, sem endurspeglar að langstærstum hluta þróun íbúðaverðs, hefur hækkað um tæplega 11 prósent frá því í mars á þessu ári.

Við teljum að sú þróun haldi áfram á næstu mánuðum áður en hækkandi vextir sem og aðrar aðgerðir Seðlabankans fara að hafa áhrif. Við spáum því að reiknaða húsaleigan hækki um 1,2 prósent milli mánaða,“ segir í greiningunni.

„Seðlabankinn er byrjaður að taka í taumana með stýrivaxtahækkunum ásamt öðrum aðgerðum. “

Um þessar mundir ríkir eftirspurnarspenna á íbúðamarkaði en undanfarna 12 mánuði hefur íbúðaverð á landinu öllu hækkað um 15 prósent. „Seðlabankinn er byrjaður að taka í taumana með stýrivaxtahækkunum ásamt öðrum aðgerðum. Það kemur að því að þrengri reglurammi lána sem og vaxtahækkanir hafi áhrif enda eru íbúðaverðshækkanir langt umfram laun ekki sjálfbærar til lengri til tíma litið,“ segir í greiningunni.

Innflutt verðbólga lætur á sér kræla

Að húsnæðisliðnum undanskildum er það liðurinn ferðir og flutningar sem hefur mest áhrif til hækkunar í nóvember. Þar vegur eldsneyti þyngst og hækkar það í verði um 2,4 prósent. Eldsneytisverð hefur hækkað um ríflega 18 prósent á þessu ári enda hefur heimsmarkaðsverð á eldsneyti hækkað skarpt. Erfitt er að ráða í flugfargjaldaliðinn um þessar mundir og lækkaði hann á milli mánaða í október þvert á spá bankans. „Við teljum þó að aukin eftirspurn og hækkandi olíuverð verði til þess að flugverð hækki í nóvembermánuði um 3,4 prósent,“ segir Íslandsbanki.

Greining Íslandsbanka hefur haft töluverðar áhyggjur af innfluttri verðbólgu að undanförnu. Verðlag erlendis hefur farið hækkandi ásamt því að flutningskostnaður hefur aukist gríðarlega. „Undanfarna mánuði höfum við séð innflutta verðbólgu láta á sér kræla og samkvæmt mælingum okkar er engin undantekning þar á í nóvembermánuð,“ segir í greiningunni. „Verðbólga mælist veruleg í flestum löndum sem við berum okkur saman við.“

Tólf mánaða verðbólga er til dæmis 5,4 prósent í Bandaríkjunum, 4,4 prósent í Kanada og 4,1 prósent í Þýskalandi.