Íslandsbanki sagði í dag upp 20 starfsmönnum. Samanlagt munu 26 ljúka störfum því samið var um starfslok sex starfsmanna sem voru að fara á eftirlaun. Þetta staðfestir Edda Hermannsdóttir, samskiptastjóri Íslandsbanka, í samtali við Fréttablaðið.

Hún segir að meirihluta þeirra sem sagt hafi verið upp hafi starfað í ýmsum deildum í höfuðstöðvum bankans . Um sé að ræða almennar hagræðingaraðgerðir til að draga úr kostnaði.

Í maí sagði Íslandsbanki upp 16 starfsmönnum. Samkvæmt heimildum blaðsins var dregið úr í ráðgjöf og í framlínustörfum, en einnig í öðrum deildum.

Upplýst var í morgun að Arion banki hafi sagt upp um 100 starfsmönnum í dag.