Íslandsbanki og Landsbanki hafa báðir tilkynnt um vaxtalækkanir í dag sem koma fast á hæla stýrivaxtalækkunar Seðlabankans í síðustu viku.

Mest er lækkunin á föstum vöxtum óverðtryggðra húsnæðislána hjá Íslandsbanka sem lækka um 0,75 prósentustig.

Þá lækka vextir breytilegra óverðtryggðra húsnæðislána um 0,5 prósentustig, vextir verðtryggðra húsnæðislána með fasta vexti um 0,35 prósentustig og breytilegir um 0,25 prósentustig.

Hjá Landsbankanum lækka bæði breytilegir og fastir vextir óverðtryggðra íbúðalána um 0,50 prósentustig. Vextir allra verðtryggðra íbúðalána lækka um 0,30 prósentustig.

Þá lækka vextir óverðtryggðra lána vegna bíla- og tækjafjármögnunar um 0,50 prósentustig hjá Landsbankanum og yfirdráttarvextir lækka um allt að 0,75 prósentustig.

Hjá Íslandsbanka lækka vextir á Ergo bílasamningum og bílálánum að meðaltali um 0,5 prósentustig.

Lækka sömuleiðis innlánsvexti

Innlánsvextir munu lækka um 0,05 til 0,75 prósentustig hjá Landsbankanum og hjá Íslandsbanka verður algeng lækkun sparnaðarreikninga 0 til 0,4 prósentustig.

Allar vaxtabreytingarnar Landsbankans taka gildi þann 1. júní næstkomandi en 4. júní hjá Íslandsbanka.

Arion banki hefur ekki enn tilkynnt um vaxtaákvörðun sína.