Íslandsbanki mun lækka útlánavexti sína um allt að 0,25 prósentustig þann 4. desember næstkomandi.

Fram kemur í tilkynningu að breytilegir vextir húsnæðislána lækki um 0,10 prósentustig á meðan Ergo bílalán og bílasamningar lækki um 0,15 prósentustig.

Þá lækka óverðtryggðir kjörvextir um 0,20 prósentustig og yfirdráttarvextir einstaklinga og fyrirtækja um allt að 0,25 prósentustig.

Innlánsvextir Íslandsbanka haldast að mestu leyti óbreyttir en nokkrir reikningar bankans lækka um 0-0,25 prósentustig.

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands lækkaði vexti sína um 0,25 prósentur um miðjan nóvember. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, eru nú 0,75% og hafa aldrei verið lægri.

Íslandsbanki hækkaði vexti á húsnæðislánum í lok október og var hækkunin rökstudd með vísan til hækkandi ávöxtunarkröfu á skuldabréfamarkaði. Þá hækkaði Landsbanki fasta vexti á nýjum óverðtryggðum íbúðalánum um 0,15 til 0,20 prósentustig þann 17. nóvember. Að sögn bankans mátti sömuleiðis rekja þá hækkun að mestu leyti til hækkandi ávöxtunarkröfu sértryggðra skuldabréfa sem bankinn gefur út til að fjármagna íbúðalán.

Fréttin hefur verið uppfærð.