Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra, afhenti Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka umhverfisviðurkenningu ráðuneytisins. Viðurkenningin kallast kuðungurinn, en viðurkenningin er veitt á Degi umhverfisins sem er í dag.

Í rökstuðningi dómnefndar kemur fram að bankinn hafi ekki einungis náð eftirtektarverðum árangri í rekstri heldur einnig skapað jákvæða hvata til þess að flýta fyrir fjárfestingu í grænum lausnum með ábyrgum lánveitingum, fjárfestingum og innkaupum.

Þá er kolefnisspor vegna rekstrar bankans talið hafa dregist saman um fimmtung á undanförnum árum, en bankinn var þegar byrjaður að skipuleggja fjarvinnufyrirkomulag starfsmanna áður en Covid-19 hóf innreið sína hér á landi.

Einnig er talið að svokölluð græn útlán bankans hafi dregið úr kolefnislosun sem nemur um 5800 tonnum, sem samsvarar þrettánföldu kolefnisspori vegna rekstrar bankans.