Íslandsbanki hagnaðist um 2,1 milljarð króna á þriðja fjórðungi ársins sem er sambærilegur hagnaður og á sama tímabili árið 2017.

Arðsemi eigin fjár var 4,9 prósent samanborið við 4,7 prósent á sama fjórðungi í fyrra. Hreinar vaxtatekjur voru 8,3 milljarðar króna samanborið við 7,5 millarða í fyrra og vaxtamunur hækkaði úr 2,8 prósentum í 3 prósent. 

Hagnaður af reglulegri starfsemi á fjórðungnum nam 2,9 milljörðum króna og hækkaði um 100 milljónir á milli ára. Arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi miðað við 16 prósent eiginfjárhlutfall þáttar 1 (CET1) 8,1 prósent á ársgrundvelli samanborið við 7,9 prósent í fyrra.

Íslandsbanki hagnaðist um 9,2 milljarða á fyrstu níu mánuðum ársins og segir Birnar Einarsdóttir bankastjóri að hagnaðurinn hafi verið í takt við væntingar. Ágætur gangur hafi verið í þóknanatekjum sem hækkupu um 6,1 prósent ef horft er til móðurfélags og Íslandssjóða auk þess sem kostnaðarhlutfall hafi ekki verið langt frá langtímamarkmiði bankans um 55 prósenta kostnaðarhlutfall. 

„Aftur á móti leiddu minni umsvif hjá tveimur af dótturfélögum bankans til 13,5% tekjusamdráttar hjá samstæðu á milli ára auk kostnaðarhlutfalls upp á 65,6% á samstæðugrunni,“ er haft eftir Birnu.

Þá hafi áframhaldandi kraftur verið í útlánum á þriðja ársfjórðungi sem hafa aukist um 10,6 prósent á fyrstu níu mánuðum ársins eða um rúma 80 milljarða króna. 

„Lausafjárstaða bankans er sterk í bæði íslenskum krónum og erlendum gjaldmiðlum og hefur fjármögnun bankans verið farsæl frá áramótum og gaf bankinn meðal annars út sitt annað víkjandi skuldabréf í lok sumars. Ennfremur þá lækkaði Fjármálaeftirlitið í september heildarkröfu um eiginfjárgrunn úr 19,8% í 18,8% fyrir Íslandsbanka sem er til marks um að heldur hafi dregið úr áhættu bankans.“ 

Í september tók Íslandsbanki í notkun nýtt grunnkerfi fyrir innlán og greiðslumiðlun og var um að ræða eitt stærsta hugbúnaðarverkefni sem ráðist hefur verið í hér á landi og mun gera bankann betur í stakk búinn til að takast á við breyttan bankaheim. Þá kynnti bankinn nýja stafræna lausn sem verður tekin í notkun í nóvember þar sem hægt verður að greiða fyrir verslun og þjónustu í öllum posum með símanum. Með þessu verður stigið stórt skref í því að einfalda greiðslumáta korthafa.