Íslandsbanki hagnaðist um 1,7 milljarða króna á fjórða fjórðungi síðasta árs en til samanburðar var hagnaður bankans 1,4 milljarðar króna á sama tíma árið áður. Arðsemi eigin fjár bankans var 3,7 prósent á ársgrundvelli á fjórðungnum.

Bankinn birti uppgjör fyrir síðustu þrjá mánuði ársins 2019 síðdegis í dag.

Fram kemur í afkomutilkynningu Íslandsbanka að hagnaður af reglulegri starfsemi bankans hafi numið 1,8 milljörðum króna á fjórða fjórðungi síðasta árs, borið saman við 2,1 milljarð króna, á sama tímabili árið 2018, og þá var arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi 4,6 prósent á fjórðungnum. Er þá miðað við sextán prósenta eiginfjárhlutfall þáttar 1. Sambærilegt arðsemishlutfall var 5,3 prósent á fjórða ársfjórðungi 2018.

Hreinar vaxtatekjur Íslandsbanka voru 8,5 milljarðar króna á síðustu þremur mánuðum 2019 og jukust um 0,2 milljarða króna frá sama tímabili árið 2018 og þá var vaxtamunur bankans 2,8 prósent.

Hreinar þóknanatekjur bankans voru auk þess 3,6 milljarðar króna á fjórða ársfjórðungi síðasta árs samanborið við 3,5 milljarða króna á fjórða fjórðungi 2018.

Stjórn Íslandsbanka leggur til að 4,2 milljarðar króna af hagnaði síðasta árs verði greiddir í arð til hluthafa, íslenska ríkisins. Greiðslan samsvarar um fimmtíu prósentum af hagnaði ársins 2019 og er í samræmi við markmið bankans um fjörutíu til fimmtíu prósenta arðgreiðsluhlutfall.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka.
Fréttablaðið/Ernir

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, segir í tilkynningu að afkoma Íslandsbanka í fyrra hafi verið ásættanleg, sér í lagi þegar horft sé til þess að mikið hafi hægst á hagvexti á árinu.

„Bankinn skilaði hagnaði upp á 8,5 milljarða króna sem samsvarar 4,8 prósenta arðsemi eiginfjár sem er undir langtímaarðsemismarkmiði. Arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi miðað við 16 prósenta eiginfjárhlutfall þáttar 1 var 6,6 prósent.

Tekjur bankans jukust um 7,8 prósent á árinu og kostnaðarhlutfall bankans lækkaði í 62,4 prósent og 57,1 prósent fyrir móðurfélagið.

Líkt og á árinu 2018 hafði rekstur eins dótturfélags neikvæð áhrif á afkomu samstæðunnar. Ný stefna Íslandsbanka og skilvirkari rekstur munu hjálpa okkur að ná þeim arðsemismarkmiðum sem við höfum sett okkur,“ nefnir Birna í tilkynningunni.

Hún segir jafnframt vöxt inn- og útlána á árinu hafa verið kröftugan eða 6,8 prósent og 6,3 prósent. Aðstæður á fjármagnsmörkuðum, hér heima sem erlendis, hafi verið bankanum hagfelldar á árinu og þá hafi fjármögnun bankans áfram verið farsæl og fjölbreytt.

„Lausa- og eiginfjárhlutföll bankans héldust áfram sterk og voru vel yfir innri viðmiðum og kröfum eftirlitsaðila. Af þessu leiðir að Íslandsbanki mun, eftir sem áður, vera vel í stakk búinn til að veita efnahagslífinu það súrefni sem þarf til viðgangs og vaxtar,“ segir Birna.