Ís­lands­banki tók ný­verið upp fjögur heims­mark­mið Sam­einuðu þjóðanna og hefur í kjöl­farið hafið inn­leiðingu á ýmsum að­gerðum sem eiga að tryggja að bankinn fylgi þessum mark­miðum eins og að gefa börnum ekki dót úr plasti og aug­lýsa ekki hjá fjöl­miðlum þar sem greina má aug­ljósan kynja­halla hjá bæði starfs­fólki og við­mælendum.

Mark­miðin fjögur sem bankinn inn­leiðir nú fjalla um jafn­rétti, lofts­lags­mál, ný­sköpun og menntun. Edda Her­manns­dóttir, markaðs- og sam­skipta­stjóri bankans, birti pistil fyrr í vikunni á visir.is þar sem hún fjallar um breytingarnar. Þar segir hún:

„Við gefum ekki börnum plast­vörur fyrir að spara heldur aukum við skemmti­lega upp­lifun, við forðumst að kaupa þjónustu af fyrir­tækjum sem fylla her­bergið að­eins af karl­mönnum, við prentum ekki skýrslur og við kveðjum aug­lýsingar hjá fjöl­miðlum sem bjóða upp á af­gerandi kynja­halla. Við verðum seint full­komin en við erum að reyna, fyrir fram­tíðina,“ segir Edda í pistlinum.

Spurð nánar út í við­miðin sem bankinn miðar við hvað varðar fjöl­miðla segir Edda í sam­tali við Frétta­blaðið í dag að bæði verði litið til kynja­hlut­falls meðal við­mælenda fjöl­miðla og starfs­fólks þeirra. Hún tekur þó skýrt fram að breytingarnar muni ekki taka gildi á einum degi.

„Við erum að horfa á bæði starfs­menn og við­mælendur. Ég fjalla um þetta í pistlinum, en það sem við erum að gera er að draga úr. Þetta gerist ekki á einum degi heldur lítum við frekar á þetta sem hvata að eiga í við­skiptum við á­byrg fyrir­tæki sem huga að þessum heims­mark­miðum,“ segir Edda.

Gerist ekki með öfgafullum hætti

Hún segir að það sé engin ný­lunda að fyrir­tæki horfi til um­hverfis- og jafn­réttis­mála við inn­kaup. Eins og staðan sé núna séu þau ekki hætt í við­skiptum við nein fyrir­tæki, en þau séu búin að hefja við­ræður og kalla eftir upp­lýsingum.

„Vinnan stendur yfir núna, en þetta er veg­ferðin sem við erum á að við munum leita meira til þeirra sem horfa til þessara mála. Þetta gerist ekki með öfga­fullum hætti, heldur í ró­leg­heitum og mun fara þannig fram að við munum draga úr á þeim stöðum þar sem ekki er vilji til að horfa meira til jafn­réttis­mála,“ segir Edda.

Edda segir að þau hafi kallað eftir upp­lýsingum frá birtingar­aðilum um kynja­hlut­föll bæði starfs­manna og við­mælenda. Eins og staðan er í dag er það að­eins RÚV sem mælir hlut­fall og birta upp­lýsingar um það á síðu sinni. Þá var árið 2017 birt niðurstaða könnunar Creditinfo fyrir FKA þar sem kom fram að kven­við­mæl­endum í ljós­vaka­miðlum hafði fjölgað um alls um tvö pró­sent milli ára. Þá voru þær viðmælendur í 35 prósent tilfella.

„En við erum að vinna þetta í þessum töluðu orðum og viljum gera það í góðu sam­ráði við fjöl­miðla og vonum að þetta hafi hvetjandi á­hrif. Við höfum ekki trú á því að það séu ekki til konur sem geti verið á dag­skrá sem þátta­stjórn­endur eða við­mælendur,“ segir Edda.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Panta ekki lengur plastdót frá Kína

Hvað varðar um­hverfis­málin þá hefur bankinn á­kveðið að hætta að gefa börnum plast­bauka, sem fluttir eru inn frá Kína, og munu í staðinn gefa þeim pappa­baukaog bjóða upp á við­burði í bankanum fyrir börn.

„Við erum núna búin að vera með Krakka­banka og við­burði í úti­búum sem hafa verið vel sóttir. Ungir krakkar koma og fjalla um um­hverfis­mál eða við bjóðum upp á ein­hver skemmti­at­riði. Svo erum við hætt að gefa börnum dót þegar börn koma með spari­baukinn. Þetta hefur í flestum til­fellum verið inn­flutt dót frá Kína og við munum kynna nýjan bauk í vikunni sem er úr pappa og er fram­leiddur á Ís­landi,“ segir Edda að lokum.