Hlutabréfaverð Íslandsbanka hækkaði um 20 prósent í fyrstu viðskiptum dagsins í Kauphöllinni. Gengi bréfa bankans er 95, samkvæmt heimasíðu Nasdaq, en var 79 krónur á hlut í hlutafjárútboði sem haldið var í aðdraganda skráningar í Kauphöll.

Níföld umframeftirspurn var í frumútboði Íslandsbanka sem lauk fyrir viku og hluthafar telja nú 24 þúsund sem er mesti fjöldi hluthafa allra skráðra fyrirtækja á Íslandi.

Ríkið fékk 55,3 milljarða króna fyrir 35 prósenta hlut, að því gefnu að valréttur til að mæta umframeftirspurn verði nýttir að fullu, en tæplega þriðjungur bréfanna var seldur til erlendra fjárfesta. Heildareftirspurnin útboðinu var 486 milljarðar króna.

Í kjölfar útboðsins mun ríkissjóður fara með 65 prósenta eignarhlut í Íslandsbanka. Gera má ráð fyrir að aðrir innlendir fjárfestar fari með um 24 prósenta hlut og erlendir fjárfestar með um 11 prósent, að því er fram hefur komið í fjölmiðlum.

Þegar hlutafjárútboðið hófst var greint frá því að tveir erlendir fjárfestingarsjóðir, Capital World Investors og RWC Asset Managament, og íslensku lífeyrissjóðirnir Gildi og LIVE, yrðu hornsteinsfjárfestar í útboðinu og hefðu skuldbundið sig til að kaupa samanlagt um tíu prósenta hlut í bankanum.