Íslandsbanki væntir nú meiri hagvaxtar í ár en við upphaf febrúar þegar þjóðhagsspá bankans var birt. Bankinn spáir því nú að hagvöxtur á yfirstandi ári verði 2,6 prósent en gerði áður ráð fyrir 2,3 prósent hagvexti. Þetta kemur þegar þjóðhagspár bankans eru bornar saman.

Á næsta ári gerir Íslandsbanki ráð fyrir 2,4 prósent hagvexti og hann nemi 2,6 prósent árið 2020. Vaxtarhraðinn verður að mati bankans í námunda við vaxtargetu hagkerfisins og mun jafnt og þétt draga úr framleiðsluspennu.

Eftir allhraðan hagvöxt um miðbik áratugarins er tekið að líða á hagsveifluna. Dregið hefur úr hagvexti og aflgjafar vaxtar eru í vaxandi mæli heimilin og hið opinbera fremur en aukin umsvif fyrirtækja.

Fram kemur í nýrri þjóðhagsspá að hagkerfið sæki í átt að betra jafnvægi á ýmsa mælikvarða og verði þróunin í takti við það spánna megi segi að um allmjúka lendingu verði að ræða eftir býsna hátt og langt flug. Það feli einnig í sér að horfur séu á að hraðar gangi á viðskiptaafgang en bankinn spáði áður. Nú er talið að viðskiptaafgangur muni nema 3,0 prósent af vergri landsframleiðslu í ár og að enginn viðskiptaafgangur muni mælast árið 2020.