Íslandsbanki er í ábyrgð fyrir tapi sem Borgun gæti mögulega orðið fyrir vegna dómsmáls sem Landsbankinn höfðaði gegn færsluhirðingarfyrirtækinu og tilteknum kröfum viðskiptavina þess. Þetta kemur fram í lýsingu útboðs Íslandsbanka.

Alþjóðlega greiðslumiðlunarfyrirtækið Salt Pay keypti Borgun fyrir 27 milljónir evra vorið 2020 en Íslandsbanki átti 63,5 prósenta hlut í færsluhirðingarfélaginu. Í lýsingu fyrir útboð Íslandsbanka kemur fram að bankinn hafi gengið í ábyrgð fyrir kostnað sem gæti fallið á Borgun vegna tiltekinna dómsmála, þar á meðal þess sem varðar Landsbankann. Ábyrgð Íslandsbanka takmarkast þó við 63,5 prósent af mögulegu tapi Borgunar og getur aldrei orðið meiri en hlutdeild bankans í sölunni á Borgun, um 17,2 milljónir evra.

Landsbankinn seldi 31,2 prósenta hlut í Borgun í lokuðu söluferli í lok árs 2014 til hóps fjárfesta. Hluturinn var keyptur á tæplega 2,2 milljarða króna en skömmu síðar kom í ljós að Borgun átti eignarhlut í Visa Europe sem sameinaðist síðan Visa Inc. Samkvæmt niðurstöðu dómkvaddra matsmanna hefði Borgun átt að upplýsa um tilvist valréttar um kaup og sölu á eignarhlut félagsins í Visa Europe Limited til Visa Inc. Upphæðin sem Landsbankinn fór á mis við nemur ríflega 1,9 milljörðum króna.

Þá hefur félag sem heldur utan um rekstur matvöruverslunarkeðjunnar Lidl í Ungverjalandi, hótað Borgun vegna meintrar ólögmætrar uppsagnar færsluhirðasamnings. Samkvæmt ársreikningi Borgunar nemur krafa matvörukeðjunnar um 202 milljónum króna.