Eina leiðin til að uppfylla markmið og skyldur Íslands í loftslagsmálum, felst í orkuskiptum í samgöngum. Mikilvægt er að hefja strax framleiðslu eldsneytis með rafgreiningu, sama hvort það heitir vetni, metan, metanól eða hefðbundin hráolía. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýlegri skýrslu Ice Fuel, sem unnin var fyrir hönd Þróunarfélags Grundartanga.

Í skýrslunni kemur fram að rafmagn sé ávallt besti valmöguleikinn sem orkugjafi samgöngu- og farartækja. Hins vegar sé það ekki alltaf raunhæft og því sé nauðsynlegt að byggja upp framleiðslu á raf­eldsneyti hér á landi.

Í skýrslunni er rafeldsneyti skilgreint sem „kolefnishlutlaus orkugjafi sem nýtist til samgangna eða þar sem ekki er fýsilegt að nota rafmagn beint“, en þar er vísað til metanóls, metans, vetnis eða jafnvel bensíns sem unnið er með rafgreiningu, knúinni af endurnýjanlegri orku. Til þess er Fischer Tropsch- efnahvarfið notað.

Sú tækni sem nýtt er til að framkalla Fischer Tropsch-efnahvarfið er ekki ný af nálinni. Til að mynda nýttu Þjóðverjar sömu aðferð til að búa til hráolíu úr kolum í síðari heimsstyrjöldinni. Á Íslandi yrði hins vegar hrein orka nýtt til að búa til bensín, dísilolíu og einna helst flugvélaeldsneyti úr vetni og kolmónoxíði, sem að sögn Bjarna Más Júlíussonar, framkvæmdastjóra Ice Fuel, yrði kolefnishlutlaus framleiðsla.

„Það er ekki einhver ein tegund rafeldsneytis sem passar fyrir allar samgöngur á sjó, landi og í lofti. Það þarf mismunandi lausnir fyrir mismunandi samgöngumáta. Það er til að mynda óraunhæft að skipta út fiskiskipum og flugvélum til skemmri tíma,“ segir Bjarni. Ammoníak mætti til dæmis nota sem orkugjafa fraktskipa. „Fiskiskipin eru hins vegar full af græjum og mannskap. Sem stendur myndi ammoníak ekki ganga á fiskiskip, rúmmál þess er tvöfalt meira en olíu sem notuð er á skip í dag.“

Bjarni bendir á að öll teikn séu á lofti um það að jarðefnaeldsneyti verði bannað í Evrópu fyrir 2050.„Fyrir okkur Íslendinga er mjög mikilvægt að hefja þessa vegferð í orkuskiptum fyrr en síðar. Ekki síst til að tryggja orkuöryggi, sem er undirstaða annarra mikilvægra þátta, eins og matvælaöryggis. Vetnið er þó grunnurinn að þessu öllu, vegna þess mikla aðgengis að endurnýjanlegri orku sem við búum yfir á Íslandi,“ segir Bjarni.

Í ljósi þess að almenn rafmagnsnotkun á Íslandi hefur um langa hríð verið knúin af hreinni orku, hefur Ísland í raun enga aðra kosti en að leggja mikla áherslu á orkuskipti í samgöngum, til að ná þeim markmiðum sem liggja fyrir í Parísar­sáttmálanum.

„Framleiðsla rafeldsneytis hér á landi er eina leiðin til að ná markmiðum okkar í kolefnishlutleysi. Vegna þess að við erum svo óheppin, ef svo má að orði komast, að fyrri orkuskipti við kyndingu og annað slíkt geta ekki farið fram, við getum því ekki dregið úr losun þar. Samgöngur eru það eina þar sem við getum bætt okkur í raun og veru.“