Sveinn Valfells, framkvæmdastjóri og einn stofnenda rafeyrisfyrirtækisins Monerium, segir að Ísland standi gríðarlega framarlega þegar kemur að fjártækni. Þetta sagði hann í sjónvarpsþættinum Markaðurinn sem sýndur verður klukkan 19:00 á Hringbraut í kvöld.

„Staða fjártækni á Íslandi er rosalega góð. Hún byggir á gömlum merg allt til fyrirtækisins RB á sínum tíma sem var leiðandi fyrirtæki í að samþætta ákveðna þjónustu fyrir íslenska bankakerfið. Þegar íslensku bankarnir hrundu 2008 voru þeir með bestu vefviðmótin af öllum bönkum sem að minnsta kosti ég þekkti til í heiminum,“ segir Sveinn og bætir við að Íslendingar hafi verið fljótir að tileinka sér öpp fyrir snjallsíma.

„Þannig tæknin sjálf er mjög góð þar sem Íslendingar eru stafrænt mjög framarlega. Síðan sáum við þegar haldin var fjártækniráðstefna hér á landi, sem var skipulögð af Gunnlaugi Jónssyni, framkvæmdastjóra Fjártækniklasans, að það eru að spretta upp mörg fyrirtæki út grasrótinni og ekki bara Monerium.“