Ísland hefur verið sett á gráan lista FAFT, alþjóðlega framkvæmdahópsins um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. RÚV greinir fráþessari endanlegu niðurstöðu málsins. Í fréttinni kemur fram að auk Ísland hafi Mongólía og Simbabve endað á listanum yfir ríki sem eru talin ósamvinnuþýð ríki. Eþíópía, Sri Lanka og Túnis hafa þó tekið nægilega vel á sínum málum til að hverfa af listanum.

Um er að ræða gríðarlegan áfellisdóm yfir íslenskri stjórnsýslu sem brást alltof hægt við viðvörunum FAFT. Herma heimildir Fréttablaðsins að alvarleiki málsins hafi nánast verið stafaður ofan í íslenska embættismenn sem ekki hafi brugðist við.

Í forsíðufrétt Fréttablaðsins á fimmtudag kom fram að Bandaríkin og Bretland hafi sótt það stíft að Ísland yrði sett á listann gráa. Þessi lönd hafi talið að mikilvægt væri að skapa fordæmi um að hart sé tekið á hinnui alvarlegu vá sem peningaþvætti er. Landið væri lítið og kostnaðurinn því, í stóru alþjóðlegu samhengi,hverfandi.

Evrópusambandið og flest ríki þess hafi þó reynt að spyrna við fótum enda þeim ekki í hag að EES-ríki færi á listann. Sú mótspyrna dugði þó ekki til og því er Ísland búið að taka sæti sitt á alþjóðlegum gapastokk, víti til varnaðar fyrir aðra.

Of snemmt er að fullyrða hver skaðinn verður fyrst Ísland endaði á listanum. Ljóst er að um orðsporshnekki verður að ræða fyrir Ísland. Helst má reikna með að erfiðara verði fyrir ný íslensk fyrirtæki, sem og einstaklinga, að stofna til viðskipta erlendis. Annað verður tíminn að leiða í ljós.

Í fréttum gærdagsins sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, að ef til þess kæmi að Ísland færi á listann þá yrði dvölin stutt. Stjórnvöld teldu sig hafa brugðist við öllum athugasemdum FAFT um nauðsynlegar úrbætur, alls 51, sem komu fram í skýrslu hópsins í fyrra.

Aðeins eitt atriði væri útistandi, innleiðing á nýju upplýsingakerfi hjá skrifstofu fjármálagreininga lögreglu til að taka á móti tilkynningum um grunsamlegar færslur. Það liggur þó fyrir að stjórnvöld hafi keypt nýtt upplýsingakerfi en innleiðing á því taki tíma og verði líklegast lokið í apríl á næsta ári.