Ísland skipar 32. sæti lista yfir vísitölu samkeppnishæfni skattkerfa af 36 sætum og fellur um tvö sæti milli ára. Það er hugveitan Tax Foundation sem birti listann í síðustu viku. Sætið ákvarðast af vísitölu sem tekur tillit til fimm undirflokka til að mæla hvort skattkerfið ýti undir efnahagslegar framfarir frekar en að draga úr þeim.

Konráð S. Guðjónsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.

Konráð S. Guðjónsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, segir það vera slæmt að við séum svo neðarlega á þessum lista.

„Staðan í þessum efnum er ekki nógu góð. Samkeppnishæfni skattskerfisins skiptir augljóslega máli ef við viljum til dæmis byggja upp öflugt velferðarkerfi með sterkum stoðum eða skapa störf í framtíðinni sem krefjast mikillar þekkingar. Þess vegna er staðan áhyggjuefni. Þó svo það sé alltaf deiluefni um hvert umfang skattheimtunnar eigi að vera þá eru fullt af tækifærum til úrbóta ef maður horfir bara á skilvirknina.“

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.
Fréttablaðið/Anton Brink

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segir það skipta máli að hér á landi sé hvetjandi og samkeppnishæft skattkerfi.

„Allt frá árinu 2013 höfum við lagt kapp á að draga úr skattbyrði einstaklinga og fyrirtækja, eftir miklar skattahækkanir stjórnarinnar sem sat ári á undan. Síðustu ár höfum við meðal annars lækkað tekjuskatt einstaklinga, lækkað tryggingagjald, hækkað skattleysismörk á fjármagns- og erfðafjárskatts verulega og hækkað skerðingarmörk bóta umtalsvert,“ segir Bjarni og bætir við að í samantekt Tax foundation sé bent á nokkur atriði sem betur mættu fara og vinna við að laga þau atriði sé hafin.

„Í samantektinni er bent á nokkur atriði í íslensku skattaumhverfi þar sem mætti gera betur eins og til dæmis að fjölga tvísköttunarsamningum og er sú vinna nú þegar hafin. Að sama skapi eru taldir kostir á borð við lágt skatthlutfall á fyrirtæki og einfalt skattkerfi.“

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
Fréttablaðið/Anton Brink

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, gagnrýnir að í samantekt Tax foundation sé ekki tekið tillit til jöfnunarhlutverks skattkerfisins.„Þessi samantekt er á vegum Tax foundation sem eru hagsmunasamtök sem standa fyrir opnu hagkerfi og lágum sköttum. Þannig í þessari samantekt eru þau ekki að taka tillit til þess sem við metum mikils hér á landi sem er jöfnunarhlutverk skattkerfisins,“ segir Katrín og bætir við að þó sé mikilvægt að skoða þessa greiningu eins og aðrar til að leggja mat á hvað megi betur fara.

„Stóra verkefnið í mínum huga er þó hvernig skattkerfið er að þjóna okkar meginmarkmiðum sem er að afla tekna til að standa undir samneyslunni og síðan að jafna kjör og aðstæður. Ef við skoðum jöfnuð og almenna velferð er Ísland að skora mjög hátt.“

Bjarni bætir við að samantektin endurspegli seint samkeppnishæfni milli landa. „Samantektin byggir á mjög fáum atriðum í skattkerfinu og ómögulegt að raða kerfum í sæti á grundvelli þess, auk þess er að finna einstaka villur um skattprósentur í samantektinni. Í þessu samhengi er áhugavert að Ísland er neðst Norðurlandana í samanburðinum, þrátt fyrir að hin Norðurlöndin hafi öll verið með meiri skattbyrði samkvæmt skýrslu OECD frá síðustu áramótum.“

„Ég tel að það væri ákveðið tækifæri að draga úr undanþágum en á móti nota það svigrúm sem skapast til þess að lækka almennt virðisaukaskatt og jafnvel draga úr skattheimtu á einstaklinga sem er almennt mikil á Íslandi.“

Konráð segir aðspurður um hvaða úrbætur væri æskilegt að ráðast í að huga þurfi að því að einfalda virðisaukaskattskerfið.„Eitt sem við höfum bent á er að Ísland skorar mjög lágt í því hvað virðisaukaskattkerfið okkar er sundurleitt. Það er mikið um undanþágur. Við þekkjum þessa umræðu að þegar það gengur illa í einhverri atvinnugrein þá er virðisaukaskatturinn bara afnuminn. Nýlegt dæmi er þegar afnema átti virðisaukaskatt af bókum. Virðisaukaskatturinn er mikilvægasti skattstofn ríkisins en samt sem áður er að öðru leyti lítil sem engin umræða um hann.Við sáum til dæmis í kosningunum að þá var engin umræða um þetta mikilvæga málefni,“ segir Konráð og bætir við að það felist tækifæri í því að draga úr undanþágum.

„Ég tel að það væri ákveðið tækifæri að draga úr undanþágum en á móti nota það svigrúm sem skapast til þess að lækka almennt virðisaukaskatt og jafnvel draga úr skattheimtu á einstaklinga sem er almennt mikil á Íslandi.“

Katrín segir að hún geti tekið undir að skoða þurfi hvort fjölga eigi tvísköttunarsamningum. „Í samantektinni er það nefnt sem ókostur hvað við erum með fáa tvísköttunarsamninga. Ég get alveg tekið undir það að það sé eitthvað sem við þurfum að skoða en ég get ekki tekið undir það að þessi samantekt geti endurspeglað samkeppnishæfni milli landa því hún byggir á mjög takmörkuðum þáttum og tekur ekki tillit til jöfnunarhlutverksins.“

Konráð tekur undir að mikilvægt sé að fjölga tvísköttunarsamningum og lækka tryggingargjaldið. „Við viljum byggja upp fjölbreytt atvinnulíf og þá gefur augaleið að þá kemur til góðs að það séu fleiri tvísköttunarsamningar en nú er. Við erum með fáa tvísköttunarsamninga og það felst tækifæri í því að fjölga þeim. Hvað varðar tryggingagjaldið þá er mikilvægt að það sé lækkað, heyrum við á okkar félagsmönnum. Það er í raun hliðstætt því sem er veikleiki hjá okkur og það eru skattar á einstaklinga, hún er mikil þó hún hafi verið lækkuð.“

Bjarni segir jafnframt að í samantektinni sé nefnt að hér hafi verið aukið við endurgreiðslur vegna rannsóknar og þróunar. „Sú breyting ásamt örðum stuðningi skattkerfisins við nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi hefur einmitt orðið til þess að stuðla að stórsókn í greininni, með fjölgun fyrirtækja og starfa og mikilli aukningu í útflutningstekjum.“