Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group segir að þær takmarkanir sem nú eru í gildi á landamærum hafi mikil áhrif á eftirspurnina eftir Íslandi sem ferðamannastað. Þetta sagði hann í sjónvarpsþættinum Markaðurinn sem sýndur verður klukkan 19:00 á Hringbraut í kvöld.

„Það eru eiginlega engar þjóðir á okkar mörkuðum sem krefja bólusetta ferðamenn um neikvæð próf þegar þau koma hingað til lands. Það er þannig í Kanada ennþá en önnur lönd eru ekki að setja kröfu um þetta eftir því sem við best vitum. Það er þannig þegar þú ert að fara að ferðast til áfangastaða að allur viðbótarkostnaður og viðbótarflækjustig hefur áhrif á valið hvert þú ferð. Þess vegna hefur þetta áhrif á eftirspurnina eftir Íslandi sem ferðamannastað. Það liggur fyrir.“

Aðspurður hvort hann telji að stjórnvöld muni bráðlega draga úr takmörkunum í ljósi nýjustu tíðinda af fjölgun smita segir Bogi að mikilvægt sé að fylgjast með nágrannaþjóðunum í því samhengi.

„Ég bara veit það ekki í hreinskilni sagt. En ég tel að við ættum bara að fylgjast með nágrannaþjóðum í þessu samhengi og það er ekki bara það að það sé krafist prófa frá bólusettum ferðamönnum. Það er líka þannig að hér er flugfélögunum ekki treyst að ganga frá þessu við byrðingu eða innritun heldur er líka gengið á eftir þessu þegar þú kemur hingað til lands sem ferðamaður. Sem veldur bara röðum í Leifstöð og það verður óþægileg upplifun, mikið kraðak og þetta er ekki svona í neinu landi sem við þekkjum. Þannig það er ýmislegt sem við getum bætt hér ef við lítum til okkar nágrannaþjóða.“

Athugasemd: Bogi vill koma á framfæri að hann mismælti sig varðandi landamæratakmarkanir í Bandaríkjunum þegar þau opna. Það verðu krafist neikvæðra COVID-prófa.