Sérfræðingahópur FATF telur að enn standi út af sex atriði sem geti leitt til þess að umbætur Íslands varðandi aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka verði ekki taldar fullnægjandi.

Þetta kemur fram í frétt á vef dómsmálaráðuneytisins. Verði það niðurstaðan fer Ísland á lista yfir svokölluð áhættusöm þriðju lönd þar sem aðgerðaáætlun er í farvegi. Á listanum má finna lönd á borð við Írak, Afganistan, Jemen og Úganda.

„Íslensk stjórnvöld hafa ásamt erlendum ráðgjöfum lagt mat á möguleg áhrif af því að Ísland lendi á listanum. Það er samdóma álit þeirra að áhrifin verði óveruleg ef af verður og er hvorki talið að sú niðurstaða hafi bein áhrif almenning né fjármálastöðugleika á Íslandi,“ segir í fréttinni.

„Erlendir aðilar í viðskiptum við íslensk fyrirtæki, þá einkum fjármálafyrirtæki og tryggingafélög, gætu þurft að kanna sjálfstætt hvort varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka séu nægilega tryggar. Unnið hefur verið að því að tryggja upplýsingagjöf til slíkra aðila með það að markmiði að takmarka áhrifin ef af verður.“

Þá segir í fréttinni að íslensk stjórnvöld hafi unnið ötullega að því að bæta varnir gegn peningaþvætti eins og sjá megi af þeim umfangsmiklu úrbótum sem gerðar hafa verið frá því að fjármagnshöftum var aflétt. Öll helstu skilyrði FATF hafi verið uppfyllt að mati íslenskra stjórnvalda og því verði því ekki séð að nokkurt málefnalegt tilefni sé til þess að breyta stöðu landsins.

Vænta má niðurstöðu á fundi fulltrúa allra aðildaríkja FATF sem haldinn verður um miðjan október.

Þau atriði sem ekki töldust uppfyllt í lok september en eru öll í vinnslu:

- Að stjórnvöld hafi ekki tímanlegan aðgang að áreiðanlegum upplýsingum um raunverulega eigendur.

- Ljúka þurfi innleiðingu á nýju upplýsingakerfi hjá skrifstofu fjármálagreininga lögreglu til að taka á móti tilkynningum um grunsamlegar færslur.

- Að starfsmannafjöldi miðað við umfang tilkynninga hjá skrifstofu fjármálagreininga lögreglu sé ófullnægjandi.

- Ljúka þurfi reglugerð, sem Alþingi þarf að veita lagastoð, um meðhöndlun og vörslur haldlagðra, kyrrsettra og upptekinna fjármuna.

- Eftirlitsaðilar þurfi að tryggja með vettvangsathugunum að tilkynningarskyldir aðila fari að lögum um frystingu fjármuna o.fl. nr. 64/2019.

- Innleiða þurfi í lög skilvirka yfirsýn yfir starfsemi almannaheillafélaga, sér í lagi hvað varðar þau almannaheillafélög sem geta verið viðkvæm fyrir misnotkun í tengslum við fjármögnun hryðjuverka. Tryggja þurfi að til staðar séu ferlar, aðferðir og mannauður til að hafa yfirsýn yfir þau almannaheillafélög sem gætu helst verið í hættu.