„Ísland er ekki of lítið fyrir banka framtíðarinnar! Við þurfum að vera framsýn og taka þátt í þeim breytingum sem eru að eiga sér stað á fjármálamarkaði, nýta smæðina og samvinnu aðila til að ná forskoti og jafnframt að hagnýta tæknina á skilvirkan hátt til framtíðar. Umhverfi og fjármögnun fyrir nýsköpunarfyrirtæki skiptir miklu máli fyrir þróun og nýsköpun á fjármálamarkaði. Tæknimenntun og þekking er lykilatriði varðandi framþróun og við munum þurfa í auknu mæli að sækja þekkingu erlendis frá til að halda áfram að vera leiðandi í fjármálaþjónustu hér á landi.“ Þetta kom meðal annars fram í máli Ragnhildar Geirsdóttur forstjóra RB á vorráðstefnu fyrirtækisins sem haldin var í samstarfi við Fjártækniklasann í Hörpu í dag.

Tilgangur ráðstefnunnar var að varpa ljósi á þá umbreytingu sem er að eiga sér stað á fjármálamörkuðum með tilkomu nýrra þátttakanda og stafrænnar tækni sem kallar á breytta hegðun viðskiptavina og jafnframt auknar væntingar í átt að aukinni sjálfvirknivæðingu þar sem viðskiptavinir þjónusta sig sjálfir.

Á ráðstefnunni komu fram sérfræðingar á sviði fjártækni og stafrænna breytinga, auk Ragnhildar, héldu Dr. Leda Glyptis sérfræðingur í stafrænni umbreytingu, Thomas Krogh Jensen, stjórnarformaður Copenhagen Fintech, Bent Dalager, forstöðumaður nýsköpunar og fjártæknisviðs hjá KPMG á Norðurlöndunum, Kristján Mikaelsson framkvæmdastjóri Rafmyntaráðs Íslands (Icelandic Blockchain Foundation). Gunnlaugur Jónsson hjá íslenska fjártækniklasanum stýrði fundi og umræðum í kjölfar framsagna.

Ljósmynd/Birgir Ísleifur Gunnarsson

Ragnhildur sagði jafnframt í erindi sínu að hraði breytinga væri gríðarlega mikill en í samanburði við framtíðina þá hefur hraðinn aldrei verið eins lítill og núna. „Tækni og þarfir viðskiptavina eru að keyra þessar breytingar áfram sem kallar á nýsköpun og hagnýtingu tækninnar. Íslenskir bankar eru byrjaðir að tileinka sér nýja tækni en við megum ekki sofna á verðinum, við verðum að vera tilbúin til að þjóna síauknum þörfum markaðarins og vera fljót að tileinka okkur nýja tækni,“ sagði Ragnhildur ennfremur.

„Við vitum ekki hvað framtíðin ber í skauti sér en ný tækni á borð við skýjalausnir, farsímalausnir, internet hlutanna og gervigreind munu móta okkar nánustu framtíð og þróun fjármálamarkaða,“ sagði Dr Leda Glyptis í erindi sínu. Hún sagði að hefðbundin fjármálafyrirtæki taki breytingum þegar ný tækni og þjónusta hefur bein áhrif á viðskipti þeirra. Hún sagði ennfremur að þegar kemur að fjártækni þá hafi hefðbundnir bankar fókuserað síðastliðin 10 ár á einfaldar lausnir og spurt rangar spurningar.

„10 ár er langur tími og það kostar mikið að bíða, það hefur farið mikið af peningum í þessar þreifingar en nú er tími til kominn að spyrja réttu spurninganna og framkvæma með þeim tilgangi að bjóða upp á viðskiptalausnir byggt á nýrri tækni sem mætir þörfum viðskiptavina meir en nokkru sinni fyrr,“ sagði Leda Glyptis

Ný tækni skapar ný störf

Thomas Krogh Jensen sagði í erindi sínu að þróunin í fjártækni hafi gerst mjög hratt í Danmörku. „Flest nýju störfin í nýsköpunargeiranum eru að verða til á sviði fjártækni og fjárfestingin beinist fyrst og fremst þangað“. Hann sagði janframt að með því að skapa vettvang á sviði nýsköpunar í fjártækni, líkt og Copenhagen Fintech, hafi haft ruðningsáhrif á aukið samstarf á fjármálamarkaði bæði innan Danmerkur og milli landa.
Bent Dalager talaði um banka framtíðarinnar í sínu erindi.

„Ný tækni mun leysa mörg hefðbundin bankastörf af hólmi en ný tækni mun einnig skapa ný störf, bara ólík störf.“ Hann sagði að gervigreind væri samofin nýsköpun í fjártækni og mun leysa af störf sem byggja á endurtekningu ennfremur mun gervigreind í nánustu framtíð sinna enn frekar beinni bankaþjónustu með beinum samskiptum. Hann sagði einnig að bankaþjónusta framtíðarinnar mun þróast áfram í átt að sérsniðinni þjónustu miðað við þarfir hvers og eins viðskiptavinar og að bankar verði samofnir öðrum efnahagslegum þáttum samfélagsins.

Kristján Mikaelsson sagði að alþjóða tæknirisar væru nú þegar að bjóða upp á stafrænar greiðslulausnir og í nánustu framtíð munu þeir umbylta fjármálakerfum heims byggt á rafmyntum og rafrænum samningum sem nýta bálkakeðju tæknina.