Stýri­vextir hafa verið hækkaðir víðs vegar í heiminum og eru frekari hækkanir í kortunum. Sjóðs­stjóri hjá Akta segir að vextir hafi hækkað víða í mörgum ný­markaðs­ríkjum og aðal­hag­fræðingur Ís­lands­banka segir að við­horf til heppi­legs vaxta­stigs hafi breyst.

Birgir Haralds­son, sjóðs­stjóri hjá Akta, segir að Ís­land sé ekki sér á báti þegar kemur að vaxta­hækkunum.

„Fólk er oft á tíðum að bera Ís­land saman við til dæmis evru­svæðið og Bret­land sem er ekki alveg réttur saman­burður,“ segir Birgir og bætir við að á síðast­liðnu ári hafi stýri­vextir í mörgum ný­markaðs­ríkjum verið hækkaðir.

„Vextir hafa hækkað skarpt í Brasilíu og Tékk­landi sem dæmi. Frá því í maí í fyrra þegar Seðla­banki Ís­lands hóf að hækka vexti aftur hafa meiri en 50 vaxta­hækkanir átt sér stað víðs vegar um heiminn á móti að­eins fimm vaxta­lækkunum. Um­hverfið hefur þannig breyst hratt á heims­vísu. En það sem hefur verið að gerast síðast­liðna mánuði er að markaðir hafa verið að verð­leggja inn hraðari og hraðari stýri­vaxta­hækkanir hjá stærstu seðla­bönkum heims, til dæmis í Banda­ríkjunum.“

Birgir Haralds­son, sjóðs­stjóri hjá Akta.

Jón Bjarki Bents­son, aðal­hag­fræðingur Ís­lands­banka, segir að það hafi átt sér stað all­hraður við­snúningur um víða ver­öld í við­horfi til heppi­legs vaxta­stigs, bæði hvað það eigi að verða núna og hvað það þurfi að vera á komandi fjórðungum.

„Þetta hefur gerst frekar hratt. Verð­bólgan hefur risið svo hratt um heim allan og orðið vanda­mál víða,“ segir Jón Bjarki og bætir við að vöxtur sé að taka við sér að sama skapi á meðal landa heims. „Vinnu­markaðurinn er orðinn miklu nær jafn­vægi bæði vestan hafs og austan heldur en margir bjuggust við. Þannig að bara á ör­fáum mánuðum höfum við séð væntingar til vaxta­þróunar hjá helstu seðla­bönkum heims breytast frá því að það gæti verið all­langt í hækkun vaxta í það að þeir eru margir ýmist byrjaðir að hækka vexti eða búnir að gefa það skýrt til kynna að vaxta­hækkun sé á næsta leiti,“ segir Jón Bjarki og nefnir að Noregs­banki sé búinn að hækka vexti í tví­gang og þar eins og víðar séu líkur á tölu­verðum vaxta­hækkunum á árinu.

„Það sama má segja um Eng­lands­banka en þar er vaxta­hækkunar­ferli einnig hafið. Það er einnig þróunin í spánum og væntingunum að vaxta­hækkunar­ferlið verði hraðara heldur en vænst var fyrir nokkrum vikum síðan. Við þetta má bæta að al­mennt er búist við því að þar verði hálfs prósentu­stigs hækkunar­skref tekið í næsta mánuði. Seðla­banki Banda­ríkjanna hélt lengi vel fram að um væri að ræða skamm­tíma verð­bólgu­skot en hefur nú viður­kennt að hafa haft rangt fyrir sér. Þannig að ljóst er að þeir munu hækka vexti á komandi misserum.“

Birgir segir jafn­framt að Seðla­banki Banda­ríkjanna muni hækka vexti í mars og eitt­hvað fram eftir ári.

„Heilt yfir má segja að það verður að öllum líkindum hörð peninga­stefna, í orði og á borði, á heims­vísu fram á mitt sumar. Þá er ekki ó­lík­legt að Seðla­banki Banda­ríkjanna vilji til dæmis bíða og sjá á þeim tíma hvernig landið liggur. Það er ýmis­legt sem bendir til þess að árstakturinn í verð­bólgunni muni fara að koma niður inn í vorið í Banda­ríkjunum vegna grunn­á­hrifa sem gæti gefið svig­rúm til að endur­meta stöðuna síðar í sumar.“

Birgir bendir einnig á að sumt bendi til að það versta sé yfir­staðið í verð­bólgu­skotinu víða er­lendis. „Það er eitt og annað sem bendir til þess að þessi virðis­keðju­vanda­mál og fram­leiðslu­vanda­mál sem hafa verið séu að hverfa á braut. Það þarf að fylgjast vel með því næstu mánuði.“

Jón Bjarki Bents­son, aðal­hag­fræðingur Ís­lands­banka.