Ís­land er ekki lengur dýrast í Evrópu. Greint var frá því í gær að samkvæmt gögnum Eurostat, Hag­stofu Evrópu­sam­bandsins frá 2018, væri Ís­land dýrasta land í Evrópu og að neyslu­verð voru á Ís­landi að meðal­­tali 56 prósentum hærri en annars staðar í Evrópu árið 2018. Á eftir Ís­landi Sviss, svo Noregur og Dan­­mörk.

Kon­ráð S. Guð­jóns­son, hag­fræðingur Við­skipta­ráðs Ís­lands, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að Eurostat birti sín gögn að­eins einu sinni á ári og að miðað við nýjustu tölur, sem séu vel að­gengi­legar með ein­földum út­reikningum, sé Ís­lands ekki lengur á toppi sem dýrasta land Evrópu. Noregur trónir nú á toppi listans fyrir júní síðast­liðinn og Sviss fylgir þar á eftir.

Noregur og Sviss dýrari

Á myndinni sem fylgir að neðan má sjá stöðuna eins og hún er í dag. Myndina gerði Kon­ráð og byggði hana á gögnum bæði Eurostat og Seðla­banka Ís­lands. Hann segir að aðal­breytingin frá því að Eurostat birti sín gögn um 2018 sé að krónan í júní 2019 var rúm­lega 10 prósentum veikari gagn­vart evru en 2018.

„Gögnin um sam­ræmdu vísi­tölu neyslu­verðs notaði ég frá Eurostat en tölur um gengi tók ég frá Seðla­bankanum. Sam­kvæmt þessu eru, að minnsta kosti, Noregur og Sviss dýrari. Noregur var 9 prósentum dýrari í júní en Sviss 6,5 prósentum dýrara,“ segir Kon­ráð í sam­tali við Frétta­blaðið.

Ísland er ekki lengur dýrasta landið í Evrópu.
Mynd/Konráð S. Guðjónsson