Ísland er eitt af þeim fimm löndum sem Bandaríkjamenn vilja helst ferðast til, samkvæmt nýlegri greiningu frá YouGov-greiningarfyrirtækinu á ferðavenjum á þessum stærsta og mikilvægasta markaði íslenskrar ferðaþjónustu. Önnur lönd á listanum eru Ítalía, Kanada, Bretland og Svíþjóð.

Sigríður Dögg Guðmundsdóttir, fagstjóri ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu, segir að í þessari könnun taki Ísland talsvert stökk milli ára. Staðan rími vel við önnur gögn sem Íslandsstofu hafa borist undanfarið og þau sýni mikla aukningu í bæði áhuga og vitund um Ísland sem áfangastað.

Sigríður Dögg Guðmundsdóttir, fagstjóri ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu.
Aðsend mynd.

„Það er ekki sjálfgefið að vera á þessum stað og þetta er afrakstur af markvissu markaðs- og sölustarfi um árabil. Það eru fjölmargir sem standa að því, innlend og erlend ferðaþjónustufyrirtæki auk okkar og annarra sem vinna í þágu áfangastaðarins.“

Íslandsstofa hefur staðið fyrir ýmsum markaðsherferðum í gegnum tíðina. Sú fyrsta var Inspired by Iceland en nýrri herferðir eru Looks like you need to let it out og Icelandverse. Markmið markaðsherferða Íslandsstofu fyrir áfangastaðinn Ísland er að efla vitund um Ísland meðal skilgreinds markhóps á lykilmörkuðum og skapa jarðveg fyrir markaðssetningu íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja. Markaðsherferðirnar eru á vegum markaðsverkefnisins Ísland – Saman í sókn og fókus aðgerða er mótaður með greininni á opnum vinnustofum sem og á vettvangi stjórnar sem er skipuð fulltrúum greinar og stjórnvalda.

Sigríður Dögg segir að skýr merki séu um það að markaðsherferðir Íslandsstofu skili árangri. Kannanir sýni greinilega aukningu í áhuga á að ferðast til landsins hjá fólki sem sér auglýsingarnar.

„Samkvæmt nýjum gögnum sem við höfum fengið erum við komin í þá sterku stöðu að vera á topp tíu-lista yfir lönd sem fólk vill ferðast til á helstu mörkuðum íslenskrar ferðaþjónustu, en það höfum við ekki séð áður.“

Sigríður Dögg bætir við að vísbendingar séu um að markaðsherferðir fyrir áfangastaðinn Ísland séu að styrkja stöðu okkar í öðrum útflutningsgreinum.

„Þessar aðgerðir endurspegla áherslur á að kynna Ísland sem heilsárs áfangastað, draga fram alla landshluta og stuðla að ábyrgri ferðahegðun.“

Aðspurð hvort ný markaðsherferð til að vekja athygli á Íslandi sem áfangastað sé í bígerð svarar Sigríður Dögg því játandi.

„Við stefnum að því að setja í gang nýja markaðsherferð fyrir áfangastaðinn í október að óbreyttu. Við höfum undanfarin ár þurft að vera á tánum með tímasetningu aðgerða vegna óviðráðanlegra ytri þátta og erum því í góðri æfingu að vera sveigjanleg og taka engu sem gefnu.“

Sigríður Dögg segir að vinnan við að kynna Ísland sem áfangastað sé stöðugt verkefni sem muni aldrei klárast. Fram undan sé háönn í ferðasýningum og vinnustofum úti um allan heim. Íslandsstofa muni fara út með fjölda íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja á söluviðburði þar sem fyrirtækin munu eiga fundi með erlendum ferðaskrifstofum til að skapa viðskiptasambönd. Þá er Íslandsstofa að skipuleggja heimsóknir erlendra fjölmiðla til Íslands og vinna með almannatengslastofum að því að kynna Ísland á lykilmörkuðum.

„Við munum jafnframt vinna áfram að markaðsverkefninu Nature Direct sem snýst um að kynna flugvellina á Akureyri og Egilsstöðum fyrir millilandaflug og er nú að skila góðri uppskeru. Svo erum við líka að vinna að því að laða ráðstefnur og hvataferðir til landsins í gegnum markaðsverkefnið Meet in Reykjavík – Iceland Convention Bureau, en sá markaður er að taka við sér á ný.“