Ísland er langt á eftir því sem er að gerast í samanburðarlöndunum hvað varðar stafræna þróun í verslunar- og þjónustugeiranum.

Þetta segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verlsunar og þjónustu, í sjónvarpsþættinum Markaðurinn sem sýndur verður á sjónvarpsstöðinni Hringbraut klukkan 19:00 í kvöld.

„Það er skylda okkar að stíga rækileg skref svo við verðum ekki áfram eftirbátur samanburðarlandanna hvað þetta varðar. Í grunninn snýst þetta um að tryggja samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs til framtíðar,“ segir Andrés og bætir við að Samtök verslunar og þjónustu hafi lagt mikla áherslu á þennan málaflokk á undanförnum misserum.

„Við höfum lagt áherslu á þetta í allri okkar kynningarstarfsemi og aðstoðað fyrirtækin að innleiða stafræna umbreytingu í sinni starfsemi. Við stigum stórt skref með stofnun Stafræna hæfniklasans sem er samstarfsverkefni okkar, VR, og Háskólans í Reykjavík með dyggri fjárhagslegri aðkomu stjórnvalda. Þetta er okkar leið til að aðstoða atvinnulífið við að mynda þekkingu á stafrænni umbreytingu á öllum sviðum.“

Aðspurður hvað sé fram undan í stafrænni þróun segir Andrés að erfitt sé að spá fyrir um hvað sé handan við hornið.

„Við munum líklega sjá frekari þróun í þá átt sem við höfum nú þegar séð í verslunum. Við höfum séð sjálfvirka afgreiðslukassa, öpp og fleiri nýjungar. Við munum sjá fleira í þeim dúr á næstu misserum.“

Í þættinum var einnig rætt um verðhækkanir á olíu og hrávörum, rekstrarumhverfi fyrirtækja, kjaramál og netverslun.