Neyslu­verð voru á Ís­landi að meðal­tali 56 prósentum hærri en annars staðar í Evrópu árið 2018. Sam­kvæmt upp­lýsingum Hag­stofu Evrópu­sam­bandsins, Eurostat, er Ís­land því dýrasta landið í álfunni. Dýrara en Sviss, þar sem neyslu­verð eru 52 prósent hærri, Noregur, þar sem neyslu­verð voru 48 prósent dýrari, og Dan­mörk, þar sem neyslu­verð voru 38 prósent dýrari.

Fjallað er um málið á franska miðlinum AFP. Þar segir ferða­maður, sem er staddur á Ís­landi, í sam­tali við miðilinn að áður en hann hafi ferðast til Ís­lands frá Banda­ríkjunum fyrir viku­dvöl með fjöl­skyldu sinni hafi hann rann­sakað landið áður.

„Þetta hefur verið örlítið á­fall,“ segir 22 ára náms­maðurinn, Qu­int John­son, í sam­tali við AFP, eftir að hann komst að því hvað, til dæmis, ham­borgari með frönskum og bjór kostar hér á landi.

Margaríta kosti 2.400 krónur

Í um­fjölluninni segir að með því að líta á mat­seðla veitinga­staða á Ís­landi megi sjá að margarítu pítsa kosti um 2.400 krónur, sem sam­svari um 17 evrum eða 19 dollurum. Vín­glas kost um tíu evrur, eða 11 dollara og stór bjór kosti um sjö evrur eða átta dollara.

„Það er mikill verð­munur miðað við það sem ég er vanur,“ segir John­son og bætir við:

„Ég get fengið ham­borgara og franskar og bjór heima fyrir um það bil 12 til 13 dollara og hér erum við lík­legri til að greiða 20 til 25 dollara.“

Á verð­saman­burðar­síðunni Num­beo segir að kvöld­matur fyrir tvo á veitinga­stað á Ís­landi kosti að meðal­tali um 85 evrur, eða 12 þúsund ís­lenskar krónur. Vín­flaska kosti í búðinni um 17 evrur, eða 2.500 krónur og tylft af eggjum kosti um fimm evrur, eða 607 krónur

Kon­ráð S. Guðjóns­son, hag­fræðingur hjá Við­skipta­ráði Ís­lands, segir í sam­tali við miðilinn að smæð landsins skipti miklu máli hér á landi og að erfiðara sé að ná fram sömu hag­kvæmni hér og í stærri löndum.

Fyrir tvo að borða úti kostar að meðaltali 12 þúsund krónur, samkvæmt heimasíðunni Numbeo.
Fréttablaðið/Stefán

Reglur og löggjöf skipti einnig máli

Þá segir einnig í um­fjölluninni að reglur og lög­gjöf skipti máli og segi að, sem dæmi, séu miklar hömlur á inn­flutningi á hráum eggjum og ó­geril­sneyddri mjólk.

Þá hafi sveiflur á ís­lensku krónunni frá 2016 til 2017 einnig leitt til al­mennra verð­hækkana.

Kon­ráð bendir einnig á að það séu sterk tengsl á milli þess hversu dýr lönd eru og al­mennra lífs­kjara. Hann segir að Ís­lendingum gangi al­mennt vel.

Mið­gildi launa var, sam­kvæmt Hag­stofu Ís­lands, fyrir fulla vinnu árið 2018 632 þúsund á mánuði fyrir skatt, sem sam­svarar um 4,450 evrum.

Segir því í um­fjöllun AFP að þótt svo að fram­færslu­kostnaður sé hár hér á landi, og geti verið á­fall fyrir ferða­menn, þá þéni Ís­lendingar nóg til að standa undir því.

„Það verður að taka launin til greina hér á Ís­landi. Hér eru, að meðal­tali, ein hæstu laun í Evrópu,“ segir Breki Karls­son, for­maður Neyt­enda­sam­takanna í sam­tali við AFP.

Segir að lokum í um­fjöllun miðilsins að breytingar séu í vændum og að, sem dæmi, Seðla­bankinn hafi spáð sam­drætti hér á landi.

Það er talið tengjast fækkun ferða­manna á Ís­landi í ár sem sé bein af­leiðing falls WOW air í mars á þessu ári. Þá hafi fisk­iðnaðurinn einnig orðið fyrir á­falli vegna skyndi­legs hvarfs loðnunnar. Það já­kvæða við hækkandi verð sé að hús­næðis­verð gæti á móti lækkað.

Um­fjöllun AFP er að­gengi­leg hér.