Eitt vandasamasta verkefni nýsköpunarfyrirtækja er að tryggja nægilegt fjármagn til að þróa hugmyndir sínar áfram. Anna Margrét Guðjónsdóttir, eigandi Evris, hefur aðstoðað íslenska frumkvöðla við að fá erlenda styrki um árabil.

Bara nú í sumar hefur Evris haft milligöngu um styrki upp á mörg hundruð milljónir króna fyrir íslensk nýsköpunarverkefni á þróunarstigi.

„Þessi þrjú verkefni sem fengu styrki í sumar, sem við áttum þátt í að afla, hafa tryggt sér samanlagt yfir 1,7 milljarða króna í styrki til áframhaldandi þróunar. Eitt þeirra fékk að auki vilyrði um hlutafé fyrir allt að milljarð frá Evrópska fjárfestingasjóðnum. Slíkir styrkir geta skipt sköpum fyrir framtíð þessara fyrirtækja.“

Verkefnin þrjú sem fengu styrki í sumar eru allt frá lækningatækjum til vindtúrbína

Til að afla slíkra styrkja þurfa fyrirtæki að fara í gegnum flókið umsóknarferli. Anna Margrét segir íslensk fyrirtæki misjafnlega í stakk búin til að fóta sig í þessu umhverfi.

„Erlendir styrkir, og þá einkum evrópskir, eru mikilvægur stuðningur við fyrirtæki í nýsköpun og geta skipt sköpum við að koma íslensku hugviti á alþjóðamarkaði. Verkefnin þrjú sem fengu styrki í sumar eru allt frá lækningatækjum til vindtúrbína. Svo er margt fleira í pípunum sem gaman verður að segja frá fljótlega,“ segir Anna Margrét.

„Við stofnuðum Evris fyrir tíu árum en árið 2016 varð ákveðinn vendipunktur í rekstri fyrirtækisins þegar við hófum samstarf við alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækið Inspiralia Group. Það samstarf hefur síðan skilað gríðarlegum fjármunum og þekkingu inn í íslenskt nýsköpunarumhverfi.“

Í dag segir Anna Margrét það vera sitt hlutverk að finna fyrirtæki og hugmyndir sem henta. Vakta þróunarsjóði, sóknaráætlanir landshluta og raunar allt það sem snertir umhverfi nýsköpunar hér á landi.

„Við erum sífellt að reyna að átta okkur á því hvaða fyrirtæki eiga möguleika á að fá styrki. Hvaða hugmyndir eiga möguleika á að ná flugi og höfða til fjárfesta. Með því að vera hluti af þessu alþjóðlega neti Inspiralia höfum við aðgang að ákveðinni fagþekkingu og gáttum inn á mikilvæga erlenda markaði.“

Ég myndi vilja sjá Íslendinga setja enn meiri fókus á verkefni sem miða að því að draga úr losun

Anna Margrét segir Ísland enn eiga mikið inni þegar kemur að lausnum og verkefnum sem tengjast loftslagsvandanum.

„Ég myndi vilja sjá Íslendinga setja enn meiri fókus á verkefni sem miða að því að draga úr losun. Þetta er svo stórt alþjóðlegt verkefni og það sem stjórnvöld um allan heim eru að setja á oddinn. Við Íslendingar höfum alla burði til að leggja okkar lóð á þessar vogarskálar og hugsa stórt.“

Bestu fyrirtækin og bestu hugmyndirnar eiga um þessar mundir betri möguleika en áður á að sækja um alla þessa alþjóðlegu styrki sem bjóðast að mati Önnu Margrétar