Stjórn Iceland Seafood International (ISI) hefur ákveðið að sameina dótturfyrirtækin Icelandic Ibérica og Iceland Seafood Spain í eitt fyrirtæki. Markmiðið er að búa til eitt sterkt fyrirtæki á Suður-Evrópumarkaðinum. 

Hjörleifur Ásgeirsson lætur í kjölfarið af störfum sem framkvæmdastjóri Icelandic Ibérica og Magnús B. Jónsson sem nú er framkvæmdastjóri Iceland Seafood Spain mun leiða sameinað félag. Samanlögð velta fyrirtækjanna nemur 180 milljónum evra, eða 24,5 milljörðum króna.

„Þetta er rökrétt skref í þróun starfseminnar í Suður-Evrópu,“ er haft eftir Bjarna Ármannssyni, forstjóra ISI, í fréttatilkynningu.

Icelandic Ibérica varð hluti af ISI við yfirtökuna á Solo Seafood árið 2018. Það er í dag eitt stærsta fyrirtækið sem selur saltaðar þorskvörur í Suður-Evrópu.