7,6 milljarða króna tap var á rekstri Isavia á fyrri helmingi ársins og var 53% samdráttur í tekjum samstæðunnar milli ára.

Til samanburðar var heildarafkoman neikvæð um 2,5 milljarða króna á fyrri helmingi 2019 en inn í þeirri tölu var niðurfærsla upp á um 1,9 milljarða króna vegna falls Wow air.

Að sögn stjórnenda hafði heimsfaraldur kórónaveiru veruleg áhrif á rekstur félagsins á fyrri helmingi þessa árs.

97% tekjusamdráttur

Fram kemur í tilkynningu að ef eingöngu sé horft til annars ársfjórðungs nam tekjusamdráttur milli ára um 77% fyrir samstæðu Isavia en 97% ef horft er til reksturs móðurfélagsins sem sinnir rekstri Keflavíkurflugvallar.

Rekstrarafkoma af samstæðu Isavia fyrir fjármagnsliði og skatta (EBIT) á fyrri helmingi ársins 2020 var neikvæð um 5,3 milljarða króna samanborið við neikvæða rekstrarafkomu upp á 942 milljónir króna árið á undan.

Þá segir í tilkynningu að Isavia hafi gripið til verulegra hagræðingaaðgerða til að mæta tekjusamdrættinum en að áhrifa þeirra muni gæta á síðari hluta ársins. Engu að síður hafi rekstrarkostnaður lækkað um 12,4% milli fyrri helmings árs 2019 og 2020.

Flugumferð taki ekki við sér fyrr en undir lok fyrsta ársfjórðungs

„Við höfum gripið til umfangsmikilla aðgerða til að mæta þessum áhrifum og höfum m.a. því miður neyðst til þess að segja upp fjölda starfsmanna hjá móðurfélaginu og í Fríhöfninni ásamt því að skerða starfshlutföll starfsmanna hjá samstæðunni," er haft eftir Sveinbirni Indriðasyni, forstjóra Isavia í tilkynningunni.

Þá segir hann að stjórnendur búi sig undir að flugumferð fari jafnvel ekki af stað á ný fyrr en í lok fyrsta ársfjórðungs 2021. Afkomuspá geri ráð fyrir að heildarafkoma samstæðu Isavia verði neikvæð um 13 til 14 milljarða króna á árinu 2020 og að áhrif kórónuveirunnar geti numið um 15 til 16 milljörðum króna.

„Aftur á móti er sjóðstaða félagsins sterk og við ráðum við að vera tekjulaus á Keflavíkurflugvelli fram á næsta vor án þess að sækja viðbótar fjármögnun. Við gerum þó ráð fyrir í okkar áætlunum að sækja nýtt fjármagn inn í félagið til að geta viðhaldið okkar umsvifum til næstu ára.“

Þá segist Sveinbjörn vera bjartsýnn á að mikil tækifæri séu til staðar fyrir íslenska ferðaþjónustu þegar flug hefjist á ný.